Flugeldi var stungið inn um glugga á lítilli íbúð í Hafnarfirði um miðnæturbil í gær. Þetta staðfestir slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu, sem ræst var út til að reykræsta íbúðina. Enginn var fluttur á sjúkrahús.

Varðstjóri á vakt segir að um hafi verið að ræða flugeld eða handblys, sem lagt hafi verið inn um gluggann. Tjónið hafi ekki verið mikið.

Slökkviliðið reykræsti íbúðina í tíu til fimmtán mínútur eftir atvikið en að svo búnu var vettvangurinn afhentur lögreglu.

Ekki fengust upplýsingar um hver var að verki eða hvað bjó að baki athæfinu, en ekki náðist í lögregluna í Hafnarfirði í kvöld.