For­maður Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar, Otti Rafn Sig­mars­son, segir flug­elda­söluna fyrir ára­mótin 2021 hafa gengið vel og vera á pari við sölu síðustu ára.

„Hún gekk bara nokkuð vel og við erum bara mjög á­nægð með söluna þetta árið. Hún var bara á pari við söluna í fyrra,“ segir Otti.

RÚV greindi frá því í fyrra að tekjur björgunar­sveitanna fyrir flug­elda­sölu ára­mótin 2020-2021 hafi verið um 800 milljónir króna. Að­spurður um hvort að tölurnar fyrir ára­mótin 2021-2022 séu sam­bæri­legar segist Otti þær ekki liggja fyrir.

„Þetta liggur ekki á reiðum höndum, Slysa­varna­fé­lagið er náttúr­lega ekki sölu­aðili, sveitirnar eru það sjálfar.“

Spurður um hvort að færri hafi skotið upp flug­eldum þessi ára­mót en áður segist Otti telja að sprengingarnar hafi verið dreifðari yfir stærra svæði þar sem minna var um stór boð og ára­móta­partý vegna sam­komu­tak­markana.

Flug­elda­sala enn helsta tekjulindin

Undan­farin ár hefur sí­fellt meira borið á gagn­rýni á flug­elda og mengunina sem af þeim hlýst. Að­spurður um hvort að Lands­björg hafi á­fram í hyggju á að reiða sig á flug­elda­sölu við fjár­öflun segir Otti:

„Meðan að staðan er þessi. Við getum fjár­aflað með þessum hætti og höfum ekkert annað til þess að vega á móti, þá munum við bara selja flug­elda. En auð­vitað vildum við hafa þetta ein­hvern veginn öðru­vísi. En þetta er svona þessi hefð sem hefur þróast í þessa ára­tugi.“

Er verið að skoða ein­hverjar aðrar leiðir til að fjár­magna fé­lagið?

„Já og nei. Við erum auð­vitað alltaf að leita leiða hingað og þangað í ýmis verk­efni. Það er hópur frá okkur sem er að koma með nýjar hug­myndir að fjár­öflunum en það er ekkert enn sem komið er sem gæti leyst flug­eldana af hólmi.“

Þannig flug­eldarnir eru ekkert á leiðinni út alveg strax?

„Nei. Með flug­elda­sölu er náttúru­lega bara verið að fjár­magna al­manna­varna­kerfið í rauninni. Þarna er verið að fjár­magna björgunar­tæki og búnað og menntun björgunar­sveitar­manna og elds­neytis­notkun og allt þetta,“ segir Otti og bætir við að um sé að ræða svo stóran pakka að finna þyrfti sam­bæri­lega stóra fjár­öflun ef leysa ætti flug­eldana af hólmi.