Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Otti Rafn Sigmarsson, segir flugeldasöluna fyrir áramótin 2021 hafa gengið vel og vera á pari við sölu síðustu ára.
„Hún gekk bara nokkuð vel og við erum bara mjög ánægð með söluna þetta árið. Hún var bara á pari við söluna í fyrra,“ segir Otti.
RÚV greindi frá því í fyrra að tekjur björgunarsveitanna fyrir flugeldasölu áramótin 2020-2021 hafi verið um 800 milljónir króna. Aðspurður um hvort að tölurnar fyrir áramótin 2021-2022 séu sambærilegar segist Otti þær ekki liggja fyrir.
„Þetta liggur ekki á reiðum höndum, Slysavarnafélagið er náttúrlega ekki söluaðili, sveitirnar eru það sjálfar.“
Spurður um hvort að færri hafi skotið upp flugeldum þessi áramót en áður segist Otti telja að sprengingarnar hafi verið dreifðari yfir stærra svæði þar sem minna var um stór boð og áramótapartý vegna samkomutakmarkana.
Flugeldasala enn helsta tekjulindin
Undanfarin ár hefur sífellt meira borið á gagnrýni á flugelda og mengunina sem af þeim hlýst. Aðspurður um hvort að Landsbjörg hafi áfram í hyggju á að reiða sig á flugeldasölu við fjáröflun segir Otti:
„Meðan að staðan er þessi. Við getum fjáraflað með þessum hætti og höfum ekkert annað til þess að vega á móti, þá munum við bara selja flugelda. En auðvitað vildum við hafa þetta einhvern veginn öðruvísi. En þetta er svona þessi hefð sem hefur þróast í þessa áratugi.“
Er verið að skoða einhverjar aðrar leiðir til að fjármagna félagið?
„Já og nei. Við erum auðvitað alltaf að leita leiða hingað og þangað í ýmis verkefni. Það er hópur frá okkur sem er að koma með nýjar hugmyndir að fjáröflunum en það er ekkert enn sem komið er sem gæti leyst flugeldana af hólmi.“
Þannig flugeldarnir eru ekkert á leiðinni út alveg strax?
„Nei. Með flugeldasölu er náttúrulega bara verið að fjármagna almannavarnakerfið í rauninni. Þarna er verið að fjármagna björgunartæki og búnað og menntun björgunarsveitarmanna og eldsneytisnotkun og allt þetta,“ segir Otti og bætir við að um sé að ræða svo stóran pakka að finna þyrfti sambærilega stóra fjáröflun ef leysa ætti flugeldana af hólmi.