Stríðið í Úkraínu og flugbönn því tengd hafa komið illa niður á flugfélögum og flugumferð í Evrópu. Evrópusambandið og EES-löndin lokuðu lofthelgi sinni fyrir Rússum og Hvít-Rússum í upphafi stríðsins og Bandaríkjamenn skömmu seinna. Rússar svöruðu með því að loka sinni lofthelgi fyrir flugvélum þessara landa. Engar vélar eru yfir Úkraínu og nánast engar yfir nágrannaríkinu Mold­óvu.

Í gær hætti rússneska flugfélagið Aeroflot öllu millilandaflugi, nema til Hvíta-Rússlands. Það sama á við dótturfélög Aeroflot, Rossííja Airlines og Aurora Airlines, og flugfélagið S7.

Minnst áhrif hefur stríðið á bandarísk flugfélög, en þau þurfa sjaldan að fljúga yfir rússneska lofthelgi. Evrópsk félög hafa hins vegar þurft að lengja leiðir sínar til Asíu, bæði farþega- og birgðaflug.

Hefur bannið haft einna mest áhrif á flug milli Evrópu og Japans. Samkvæmt evrópsku flugsamgöngustofnuninni, Eurocontrol, hefur leiðin milli Helsinki og Tókýó lengst um 286 mínútur, næstum 5 klukkutíma. Vélarnar fljúga nú suður fyrir átakasvæðið, yfir Kákasus, Kasakstan, Mongólíu og Kína.

Lengri flugleiðir þýða vitaskuld meiri kostnað og hærra verð. Ofan á þetta leggst síðan hækkandi verð flugvélabensíns sem gæti hækkað enn meira fari Vesturveldin og Rússland í hart í orkustríði.

Þá hafa ýmis evrópsk flugfélög misst út leiðir til Rússlands, svo sem Air France og Finnair. Umsvif ungverska flugfélagsins Wizz Air drógust saman um 7 prósent á fyrstu viku stríðsins.

Enn verr hafa hins vegar japönsk flugfélög á borð við Nippon Airways og Japan Airlines lent í banninu. Hafa þau fellt niður mörg af sínum flugum til Evrópu eða þá flogið mun lengri leið yfir Kanada, Grænland og Ísland.