Tveir karl­menn flúðu Salinas fangelsið í Mon­ter­ey-sýslu Kali­forníu á sunnu­daginn með því að skera gat á loftið inni á bað­her­bergi fangelsisins en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Mennirnir liggja undir grun í sitt­hvoru morð­málinu og voru að bíða eftir réttar­höldum sínum þegar þeir sluppu.

„Við erum von­svikin að það sé fólk sem á­kært er fyrir morð sem er ekki lengur í fangelsinu okkar,“ sagði tals­maður em­bættis lög­reglu­stjórans í Mon­ter­ey-sýslu en lög­regla hefur nú boðið fimm þúsund dollara í verð­launa­fé til ein­hvers sem getur veitt frekari upp­lýsingar um hvar mennirnir eru nú staddir.

Mennirnir skriðu í gegnum þröngt viðhaldssvæði.
Mynd/Lögreglustjóri Monterey-sýslu

Gatið rétt rúm­lega hálfur metri á breidd

Að sögn lög­reglu gerðu hinn 21 árs gamli Samuel Fon­se­ca og hinn tví­tugi Jon­a­t­han Salazar gat á loftið inni á bað­her­bergi fangelsisins þegar fanga­verðir sáu ekki til. Gatið var um 55 sentí­metrar á breidd sem var nóg fyrir bæði Fon­se­ca og Salazar að sleppa í gegnum en þeir eru báðir um 170 sentí­metrar á hæð.

Mennirnir skriðu þá í gegnum þröngt við­halds­svæði og ýmsar lagnir þar til þeir komust út um hlera í aftur­hluta fangelsisins en engin öryggis­girðing var þar. Leit hefur hafist á mönnunum en talið er að þeir séu vopnaðir og að hætta stafi af þeim.