Flúðir um Versló mun ekki fara fram næstkomandi Verslunarmannahelgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni. Þar segir að ákvörðunin sé þungbær, er fólk hvatt til að huga mjög vel að persónulegum smitvörnum.

Bergsveinn Theodórsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, segir í samtali við RÚV að í ljósi aukninga smita í samfélaginu þá vilji skipuleggjendur ekki stuðla að því að fólk komi saman.

„Við náttúrulega erum búin að vera on og off í undirbúningi á þessari hátíð sem átti að fara fram í sjötta skiptið, en í ljósi þessara aukninga í smitum þá sjáum við okkur ekki fært um að vera að stuðla að því að fólk sé að safnast saman, og viljum með þessu sýna ábyrgð. Þetta er svekkelsi og draugfúlt, en svona er þetta víst,“ sagði Bergsveinn.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í samtali við Fréttablaðið að smit­hættan sé meiri í aðstæðum á borð við útihátíðir. „Við getum sagt að smit­hættan er meiri á svona stórum úti­há­tíðum þar sem fólk er í alls­konar á­sigu­komu­lagi og kannski ekki að passa sig í smit­vörnum,“ sagði hann.

Enn er stefnt að því að halda Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Innipúkann og Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um Verslunarmannahelgina.