Basema Hassan kom til landsins fyrir tíu mánuðum síðan frá Grikk­landi. Þangað hafði hún flúið frá heima­landi sínu, Palestínu, eftir að fjöl­skylda hennar reyndi að neyða hana til að giftast manni sem að hún vildi ekki giftast. Frá því að hún for frá Palestínu hefur hún ekki talað við fjöl­skyldu sína.

Basemu var til­kynnt 27. septem­ber að það ætti að vísa henni aftur til Grikk­lands, eins og svo mörgum öðrum sem hingað koma, vegna þess að þar er hún komin með vernd. Leyfi hennar í Grikk­landi er þó bara tíma­bundið og rennur brátt út.

En eins og svo margir aðrir sem þaðan koma, þá vill Basema ekki fara þangað aftur því þar er ekkert fyrir hana að gera auk þess sem hún sér fram á að vera heimilis­laus og at­vinnu­laus.

Magnús Davíð Norð­dahl, lög­maður, hefur tekið að sér mál Basemu og segir að málið sé á frum­stigi hjá þeim.

„Við vorum skila inn kröfu um frestun réttar­á­hrifa og bindum vonir við að kæru­nefnd út­lendinga­mála fallist á þá kröfu,“ segir Magnús.

Basema við kennslu í Palestínu.
Mynd/Aðsend

Þekkir engan og sér enga framtíð í Grikklandi

Basema segir að í Grikk­landi þekki hún engan og að hún sjái enga fram­tíð fyrir sér þar.

„Út­lendinga­stofnun sagði við mig að ég gæti búið í Grikk­landi því þar séu engin vanda­mál, en ég get ekki verið þar, það er of erfitt og það eru of mörg vanda­mál. Leyfið mitt rennur bráðum út og þá verður það enn erfiðara að vera þar,“ segir Basema.

„Ég þekki engan í Grikk­landi og á engan pening eða fjöl­skyldu þar.“

Hér að neðan má sjá myndir af húsnæði Basemu í Grikklandi.

Húsnæðið var kuldalegt og hrátt.
Mynd/Aðsend
Aðstæður voru ekki góðar.
Mynd/Aðsend

Vildi ekki giftast of ung

Basema er 23 ára gömul og á sér draum um að læra sál­fræði. Í Palestínu vann hún með börnum, við kennslu, og fannst það líka skemmti­legt.

„Ég kom til Ís­lands frá Grikk­landi því það var of erfitt að vera þar. En ég flúði Palestínu vegna vanda­mála sem ég átti við fjöl­skyldu mína. Í Grikk­landi var ég ein og átti erfitt með að hugsa um sjálfa mig,“ segir Basema og bætir við:

„Fjöl­skyldan mín vildi að ég myndi giftast manni sem ég vildi ekki giftast. Mér fannst ég enn of ung og mér líkaði ekki við hann.“

Auk þess segir hún að flestir viti hvernig öryggis­að­stæður eru í Palestínu og hún geti ekki búið þar.

„Mig langar að vera á­fram á Ís­landi. Mig langar að læra sál­fræði. Í Palestínu mátti ég ekki fara í skóla en hér hef ég tæki­færi til að mennta mig og hér er öruggt að vera, þess vegna vil ég vera hér á­fram,“ segir Basema.

Hún veit ekki hve­nær hún þarf að fara en er stressuð yfir því að þurfa að fara. Hún hefur frá því að hún kom til landsins hitt sál­fræðing og líður betur. Hún vill gjarnan halda á­fram að hitta hann.

Húsnæðið var illa búið.
Mynd/Aðsend