Damian Karol Jatczak, pólskur ríkisborgari, hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að flytja inn í landið nær tvö þúsund OxyContin töflur en hann er hvergi að finna. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudag í síðustu viku.

Maðurinn flaug til landsins frá Katowice 20. nóvember síðastliðinn og var tekinn á Keflavíkurflugvelli með alls 1.980 töflur af ávana- og fíknilyfinu OxyContin. Samkvæmt dómnum fundu tollverðir töflurnar í þremur pokum í vasa á vesti sem maðurinn klæddist, við leit á honum við komuna til landsins.

Lét sig hverfa

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum skipaði manninum að halda sig innan marka höfuðborgarsvæðisins í sex vikur meðan rannsókn stóð yfir og beðinn um að tilkynna sig þrisvar í viku á næstu lögreglustöð. Þann 4. janúar síðastliðinn þegar málið barst dóminum var reynt að hafa upp á manninum en án árangurs.

Ákæran var þá birt í Lögbirtingarblaðinu með þeim upplýsingum um að ef maðurinn myndi ekki mæta í þingfestingu yrði fjarvest hans metin sem viðurkenning á broti. Maðurinn mætti ekki í þingfestingu og var hann því dæmdur sekur.

Daníel Reynisson, aðstoðarsaksóknari hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum og Halldóra Aðalsteinsdóttir, settur verjandi mannsins, telja líklegt að maðurinn hafi flúið land eftir skýrslutöku hjá lögreglunni. Þau reyndu ítrekað að hafa uppi á honum í gegnum dómsmálið án árangurs.

„Hann hefur líklega látið sig hverfa áður en málið var þingfest,“ segir Daníel í samtali við Fréttablaðið. Aðspurður hvort þetta sé algengt í fíkniefnamálum, að menn láti sig hverfa áður en dómur fellur, segir Daníel það sjaldgæft.

„Í stærri fíkniefnamálum eru gerðar ráðstafanir til að tryggja að menn geti ekki flúið land,“ útskýrir Daníel. Í máli Damians Karol var hann aðeins beðinn um að láta vita af sér en hann var ekki úrskurðaður í farbann.