Fazal Omar, flúði frá Kabúl á mánu­dag á­samt konu sinni og fjórum börnum. Omar er Afgani með ís­lenskan ríkis­borgara­rétt en hann kom hingað fyrst árið 2001 á flótta undan Tali­bönum sem hafa nú náð völdum aftur í Afgan­istan eftir tuttugu ára her­setu vestur­landa.

„Á­standið er ekki gott núna, mjög vont, mjög slæmt. Allir eru svona af­ra­id og reyna að flýja frá Afgan­istan. Við vitum ekki hvað gerist. [...] Það er kaotískt á­stand,“ segir Omar í sam­tali við Frétta­blaðið en hann er nú staddur á sótt­kvíar­hóteli á­samt fjöl­skyldu sinni.

Omar starfaði við friðar­upp­byggingu í Afgan­istan fyrir fé­laga­sam­tökin DHSA/TKG – De­velop­ment and Humanitarian Services for Af­g­hanistan. Hann segist hafa byrjað að vinna að því að koma fjöl­skyldu sinni úr landi í júlí þegar hann sá að á­standið í landinu var að versna.

„Ég var í sam­bandi með Utan­ríkis­ráðu­neytið og líka Út­lendinga­stofnun í júlí. Miðjan júlí eða byrjun júlí [...] Börnin mín eru ís­lenskir ríkis­borgarar, ég spurði getur þú hjálpað mér að koma mér og fjöl­skyldunni minni til baka til baka til Ís­land?“

Fazal Omar dvelur nú á sóttkvíarhóteli ásamt konu sinni og fjórum börnum.
Mynd/Aðsend

Tali­banar lömdu 4 ára dóttur hans

Omar segist ekki hafa búist við því að á­standið myndi stig­magnast svo fljótt, en eftir að Tali­banar tóku Kabúl í síðustu viku hefur skapast mikið öng­þveiti í borginni er Af­ganar og er­lendir ríkis­borgarar berjast um að komast úr landi. Omar segist hafa fengið hjálp frá ís­lenskum full­trúa At­lants­hafs­banda­langsins sem kom honum og fjöl­skyldu hans undir verndar­væng finnskra her­manna sem fylgdu þeim að Hamid Karzai al­þjóða­flug­vellinum. Omar lýsir á­standinu við flug­völlinn sem skelfi­legu:

„Þetta var mjög kaotískt, mjög skrýtið, mjög erfitt, þú skilur, maður þjáist mjög mikið. Við vorum laminn þegar við reyndum fyrst. Tali­banar, þeir lömdu alla með prikum, meira að segja litla fjögurra ára stelpan mín var lamin, hún grét svo mikið, þetta var alveg hræði­legt. Og mikill mann­fjöldi, þannig maður gat ekki hreyft sig. Margir misstu með­vitund, vegna hitans og loftsins, það er erfitt að hafa stjórn á öllu. Og þeir sem stjórna eru mjög miskunnar­lausir með þetta, þeim er sama, þeir lemja mann með priki.“

Eins og áður sagði hefur Omar sjálfur starfað við friðar­upp­byggingu í Afgan­istan og segist hann hafa heim­sótt nánast öll héruð landsins í vinnu sinni. Hann er ekki bjart­sýnn á fram­haldið og segir upp­byggingu síðustu tuttugu ára vera að hruni komna.

„Við höfum ekkert núna, allt er farið. [...] Öll af­rek síðustu tuttugu ára eru horfin, af­rek þegar kemur að fé­lags­málum, efna­hags­málum, inn­viðum, sam­fé­lagi, efna­hagi, vald­eflingu kvenna, allt horfið. Þetta voru af­rekin sem við náðum fram á síðustu 18-20 árum. Ég held að við höfum tapað og farið aftur á byrjunar­reit.“

Það er al­gengt orða­til­tæki að sagan endur­taki sig aldrei, en ég hef séð hana endur­ta­kast í mínu lífi. Hið myrka tíma­bil sem við sáum síðast 2001 er komið aftur til landsins míns.

Hefur séð söguna endur­taka sig

Omar segist vera sáttur með að vera kominn aftur til Ís­lands en hann bjó hér síðast á árunum 2001-2009. Hann bíður þess að losna úr sótt­kví svo hann geti hafið nýtt líf hér á landi á­samt fjöl­skyldu sinni. Hann er ó­myrkur í máli er hann lýsir kald­hæðni þess að vera í annað sinn á ævi sinni á flótta undan Tali­bönum.

„Það er al­gengt orða­til­tæki að sagan endur­taki sig aldrei, en ég hef séð hana endur­ta­kast í mínu lífi. Hið myrka tíma­bil sem við sáum síðast 2001 er komið aftur til landsins míns. Við erum mjög von­svikin, af því í tuttugu ár er eins og maður sé að klífa fjall en svo hrynur maður aftur niður. Við vitum ekki hvernig þetta verður. Öll þjóðin, eins og ég sé hana, er von­laus, maður sér ekki bros á and­litum fólks,“ segir Omar.

Þótt Omar sé ekki von­góður um fram­tíð Afgan­istan segist hann vera feginn því að hafa sjálfur komist úr landi á­samt konu sinni og börnum.

„Ég á dætur og ég er heppinn því að minnsta kosti eru börnin mín á lífi. Þau eru Ís­lendingar og hafa réttinn á því að vera á venju­lega svæði í venju­legu lífi, af þeirri á­stæðu er ég glaður.“