Karlmaður frá Venesúela sem kom hingað til lands og sótti um vernd í janúar síðastliðnum á að fá slíka vernd. Þetta er niðurstaða kærunefndar útlendingamála sem þar með hnekkir ákvörðun Útlendingastofnunar um að manninum yrði vísað úr landi.

Útlendingastofnun taldi manninn ekki vera flóttamann og að hann uppfyllti ekki heldur skilyrði til að fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefndin segir manninn hafa flúið frá Venesúla til Perú í janúar 2018. Þar hafi hann dvalið í þrjú ár. Hann hafi tekið þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum í Venesúela og orðið vitni að miklu ofbeldi af hálfu þarlendra stjórnvalda.

„Hann hafi séð vini sína handtekna eða skotna og ekki hafi verið hægt að fara með þá á spítala af ótta við yfirvöld,“ segir í úrskurði nefndarinnar. Þá kemur fram að móðir mannsins hafi fengið alþjóðlega vernd á Íslandi sama dag og hann sótti sjálfur um slíka vernd.

Í úrskurði kærunefndar er farið ítarlega í saumana á stöðu mála í Venesúela og alþjóðlegar skilgreiningar í mannréttindamálum. Ljóst sé að leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2019 um að senda venesúelska ríkisborgara ekki aftur til Venesúela gegn þeirra vilja væru enn í gildi.

„Er það mat kærunefndar að aðstæður í heimaríki kæranda séu slíkar að raunhæf ástæða sé til þess að ætla að hann eigi á hættu að sæta þar meðferð sem nái því marki að teljast ómannúðleg eða vanvirðandi,“ segir meðal annars í úrskurðinum.