Flóttamaður sem dvalið hefur í Ásbrú á Reykjanesi var fluttur á sjúkrahús í gær eftir sjálfsvígstilraun. Ekki er vitað frekar um afdrif hans á þessari stundu en vinur hans, sem einnig dvelur í Ásbrú, segir aðra íbúa ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá lögreglu um hvort vinur þeirra sé lífs eða liðinn. Verkefnastjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd segir mikil þyngsl vera yfir kerfinu og flóttamenn geta sokkið dýpra í depurð ef ekki er gripið inn í. 

Samtökin No Borders greina frá þessu á Facebook síðu sinni, en þar kemur fram að maðurinn hafi fengið neitun á dvararleyfisumsókn sína og eigi yfir höfði sér brottvísun. 

Aimal Aizi, nítján ára félagi mannsins sem einnig dvelur í Ásbrú, segir hópinn hafa þungar áhyggjur af vini sínum og engar upplýsinar hafi fengið um hann frá viðbragðsaðilum. Segir hann að þungt sé yfir flóttamannabúðunum þar sem nær allir sem þar dvelja eigi yfir höfði sér brottvísun. „Við erum að horfa upp á tvo til þrjá tekna og brottvísað í hverri viku og það er mjög niðurdrepandi,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: „Þetta er ekkert líf“

Áður hefur verið fjallað um ástandið í Ásbrú. Fréttablaðið ræddi  við tvo flóttamenn sem þar dvelja fyrir stuttu, meðal annars ofangreindan Aimal og Martins Uchema frá Nígeríu. Þeir sögðu bæði vistina í Ásbrú vera niðurdrepandi, lítið væri við að hafast og vonleysið mikið. 

Kemur hingað mjög illa haldið

Áshildur Linnet, verkefnisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, segir í samtali við Fréttablaðið að ástandið þar einskorðist ekki við Ásbrú heldur séu þyngsl í kerfinu sem heild. „Hópurinn sem við höfum verið að fá til landsins undanfarna mánuði er verr settur,“ segir hún og bendir á að málsmeðferðartími sé að lengjast og umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi jafnvel beðið í fimm til sex mánuði eftir viðtali. Segir hún þennan tíma geta verið mjög þungbæran fyrir fólk.

Þá bendir hún á að hópur flóttamanna sem hefur leitað hingað síðustu ár hafi breyst. „Við erum að fá fólk sem hefur orðið fyrir meiri áföllum á sinni flóttaleið, eins og fólk sem hefur verið langtímum saman í flóttamannabúðum á Grikklandi og Ítalíu og kemur hingað mjög illa haldið.“

Segir hún þann hóp bæði hafa orðið fyrir og upplifað ofbeldi í flóttamannabúðunum og svo sé stór hluti þeirra sem hingað sækja frá stríðshrjáðum löndum. „Fólk hefur orðið fyrir ýmsum áföllum, bæði í lífinu og á flóttaleiðinni,“ segir hún.

Lítið við að vera í Ásbrú

Ásbrú er staðsett í Reykjanesbæ. Þar býr hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd í jaðri á íbúðarhverfi. Aðbúnaður í Ásbrú hefur ítrekað verið gagnrýndur bæði af íbúum og samtökunum No Borders, sem beita sér fyrir réttindum fólks á flótta. „Vandamálið uppi á Ásbrú er kannski að þeir hafa svo lítið við að vera,“ segir Áshildur sem kannast við það að þeir sem þar dvelja upplifi sig einangraða og aðgerðarlausa.

„Við fáum til okkar fólk sem er mjög illa haldið af depurð og sekkur jafn vel dýpra í þessa depurð þegar það er hér, ef það er ekki gripið inn í,“ segir Áshildur. Bendir hún á að útköllum áfalla- og hjálparteymis Rauða krossins hafi aukist frá níu upp í 26 útköllum milli ára. 

„Það eru mörg lítil skref sem hægt er að taka til að koma í veg fyrir svona atburði. Það er fullt af tækifærum til að laga, en því þarf auðvitað að fylgja mannafli. Við þurfum að hugsa þetta sem langtímaverkefni.“

Sem fyrr segir fengu aðrir íbúar í Ásbrú engar upplýsingar afdrif mannsins. Vita þeir enn ekki hvort hann sé lífs eða liðinn, eða hve alvarleg meiðsl hans eru. Segir Áshildur skilja að það geti verið erfitt að sitja í myrkrinu en slíkar upplýsingar megi einfaldlega ekki gefa nema með leyfi viðkomandi. Atburðir sem þetta geti þó ýft upp fyrri áföll fólks. 

„Við þurfum líka að hlúa að þeim sem verða vitni af svona atburðum því það getu rifið upp sár og óvissu. Þó mennirnir séu ókunnugir þega þeir eru settir þarna saman þá upplifum við líka mikla samkennd. Menn vilja geta rétt fram hjálparhönd og létt undir með öðrum.“