Flóttafólk efndi til mótmæla í miðborg Reykjavíkur síðdegis í gær. Hópurinn gekk frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll, með heimatilbúin mótmælaspjöld á lofti þar sem ræðuhöld fóru fram. Fréttablaðið ræddi við tvo mótmælendur, en kröfur þeirra snúa meðal annars að því að fá að vinna og að íslensk yfirvöld skoði mál allra umsækjenda um alþjóðlega vernd til hlítar og hætti að nota Dyflingarreglugerðina.  

„Ekki fleiri brottvísanir“

Það var bjart yfir miðborginni, en þungt yfir mótmælendum þegar nokkuð fjölmennur hópur gekk niður Skólavörðustíg og Bankastrætið í átt að Alþingi.  

Þar beið hópur lögreglumanna við Alþingi en engin Alþingismaður sást í gluggum hússins, enda stendur nú yfir kjördæmavika á Alþingi. Mótmælendur voru margir komnir úr Ásbrú í Keflavík þar sem stór hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd dvelja. Fjallað hefur verið Ásbrú í fjölmiðlum, en flóttamenn sem þar dvelja segjast einangraðir og einmana. 

Sjá einnig: Flóttafólk á Íslandi efnir til mótmæla

Mótmælendur héldu á heimatilbúnum kröfuspjöldum úr pappa eða taui þar sem meðal annars stóð „Niður með landamæri,“ „Ekki fleiri brottvísanir“ og „Engin manneskja er ólögleg.“  

Minntist tveggja Íraka í kirkju

Kröfur mótmælenda voru í fimm liðum. Ekki fleiri brottvísanir, efnismeðferð fyrir alla, leyfi til að vinna og öruggt húsnæði, jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu og að lokum að því sem kallað er flóttamannabúðirnar á Ásbrú verði lagðar niður. 

Á Austurvelli héldu sjö ræðu, sex flóttamenn auk Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. Ræðumennirnir komu frá Íran, Afganistan, Sómalíu, Írak og Kamerún og biðluðu meðal annars til stjórnvalda að „opna dyrnar.“ Einn ræðumanna sagði ástandið á Ásbrú, þar sem um hundrað flóttamenn eru vistaðir, vera svo slæmt að hópurinn örvænti. Fólk væri sótt af lögreglu á hverju kvöldi til brottvísana.   

Í ræðu sinni minntist Sólveig Anna tveggja Íraka, sem vísað var hér úr landi fyrir tæpum þremur árum. Annar þeirra var sextán ára á þeim tíma og vakti það mikla athygli þegar þeir voru dregnir út úr kirkju af lögreglumönnum í viðurvist fjölda vitna. 

Dreymir um að klára nám í tölvunarfræði

Fréttablaðið ræddi við tvo mótmælendur, sem báðir eru umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi sem dvelja á Ásbrú í Keflavík. Annar kemur frá Afganistan en hinn frá Nígeríu. Var þeim báðum mikið niðri fyrir og sögðust vilja biðla til stjórnvalda að skoða mál þeirra. 

Aimal Aizi er nítján ára og kemur frá Afganistan. Hann var einn ræðumanna við Austurvöll, en segist hann óttast að vera sendur aftur heim. 

Aimal flúði frá Afganistan til Belgíu fyrir fimm árum, en segist hafa verið neitað um hæli eftir nokkur ár þar í landi. „Ég get ekki farið aftur til Afganistan. Ég kom til Íslands frá Belgíu en nú hefur mér verið neitað um hæli hér á Íslandi vegna Dyflinnarreglugerðarinnar,“ segir Aimal. 

Frá Belgíu til Afganistan

Til stendur því að vísa Aimal aftur til Belgíu þaðan sem hann segist fara rakleitt til Afganistan. 

„Ég veit að Belgía er öruggt ríki en það er ekki öruggt fyrir mig, ef ég verð sendur aftur þangað verð ég sendur beint til Afganistan. Ég veit ekki hvað ég á að gera og þess vegna skipulögðum við þessi mótmæli. Ég vona að einhver geti hjálpað okkur,“ segir hann og ítrekar að ef að hann hefði fengið leyfi til að vera í Belgíu hefði hann aldrei komið til Íslands. 

Aimal hefur dvalið að Ásbrú frá því að hann kom til landsins fyrir sex mánuðum og segir dvölina hafa verið afar erfiða. „Við getum ekkert gert, við getum ekki farið til Reykjavíkur og höfum ekkert að gera, við erum bara inni í herbergi alla daga.“ 

Aimal dreymir um að fá að klára nám í tölvunarfræði, en hann segist hafa átt eitt ár eftir af náminu í Belgíu þegar hann kom til Íslands. „Ég lærði tungumálið fullkomlega, var í skóla og gerði ekkert af mér í Belgíu en þau vildu ekki veita mér hæli því ég kem frá höfuðborg Afganistan og þau segja að borgin sé örugg. Hún er ekki örugg, það er fólk myrt á hverjum degi. Ef ég fer aftur til Afganistan veit ég að þau munu myrða mig og þess vegna flúði ég.“ 

Móðir Aimal, litli bróðir og litla systir hans eru enn í Afganistan. Segist hafa átt nokkuð örugga æsku, þar sem faðir hans var opinber starfsmaður. „Pabbi minn starfaði fyrir stjórnvöld en eitthvað gerðist, hann var myrtur og þess vegna flúði ég. Ef ég fengi að vera hér gæti ég haldið áfram að læra tölvunarfræði. Það er draumur hjá fjölskyldunni minni að ég klári skóla. Ég er ekki hér að leita að peningum, ég kom hingað til að verða öruggur,“ segir hann að lokum.

Hefði aldrei komið ef lífið væri gott heima

Martins Uchema frá Nígeríu var einnig meðal mótmælenda. Hann hefur verið stutt á Íslandi, einungis tæpa tvo mánuði, en hann kom hingað til lands frá Ítalíu. Þar segist hann hafa sofið á götunni og enga vinnu að fá. „Ég vil hvetja íslensk stjórnvöld til að skoða stöðu okkar. Ef að líf mitt væri gott heima, þá hefði ég aldrei komið. Ég kom frá Ítalíu en ástandið er skelfilegt, þó þú fáir skilríki þá færðu enga vinnu,“ segir hann. 

Martins dvelur einnig að Ásbrú og segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi ekki komið til Íslands til þess að láta ríkisstjórnina hugsa um sig, heldur vilji hann fá að vinna og eiga líf. 

„Þetta er ekkert líf, ég vil að þau íhugi að leyfa okkur að vinna og hætta að brottvísa okkur. Ef að það væri í lagi á Ítalíu hefðum við ekki komið,“ segir hann og heldur áfram: 

„Brottvísununum verður að linna. Ég veit það er ekki í mínu valdi að stoppa þær en ég hvet þau að hætta þeim. Við komum ekki hingað til að arðræna þetta land heldur til að byggja upp öruggt líf, borga skatta og vera hamingjusöm.“

Sem fyrr segir dvelur Matins einnig að Ásbrú, segir hann lífið þar vægast sagt ömurlegt. „Við gerum ekkert nema vakna, sofna. Stundum hugsa ég hvort ég eigi bara að drepa mig því ég hef ekkert að gera. Vilja þau að við göngum í gegnum þá niðurlægingu? Stundum íhuga ég að hoppa út um gluggann því ég get ekki farið aftur til Ítalíu,“ segir hann að lokum.