Það þarf að efla lögreglu á landamærum til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi, en það hefur verið mikil aukning á tilraunum til fíkniefnainnflutnings á Keflavíkurflugvelli. Þá er hætta á að skipulagðir brotahópar hagnýti sér umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi, með smygli og mansali.
Þetta kemur meðal annars fram í stöðumati frá greiningardeild embættis ríkislögreglustjóra, en stöðumatið er vinnuskjal sem aðstoðar lögregluyfirvöld að bera kennsl á álagspunkta og skýra verkefni til skilvirkar forgangsröðunar.
Í skýrslunni segir að skipulögð brotastarfsemi á íslandi sé umfangsmikil og alþjóðleg í eðli sínu og er hún skipulögð á þann hátt að erfitt sé að greina brotin nema heildarmynd starfseminnar liggi fyrir. Ljóst er að íslenskir aðilar erlendis stýri þessum hópum sem hafa fest rætur sínar hér á landi.
Flóttafólk hagnýtt fyrir brotastarfsemi
Á Norðurlöndunum hafa komið upp fjölmörg mál þar sem viðkvæm staða flóttafólks frá Úkraínu er hagnýtt til skipulagðrar glæpastarfsemi. Í skýrslunni kemur fram að það sé þörf á að vinna að frekari greiningu á stöðu þessa hóps þegar kemur að mansali og smygli á fólki.
Þá er ítrekað að lögreglan leggi jafn mikla áherslu á mikilvægi þess að huga að þolendum mansals og að mikilvægt ser að fyrirtæki jafnt sem stjórnvöld hafi leiðbeiningar um einkenni mansals í huga við starfsemi sína.
Talið er öruggt að umfangsmikið peningaþvætti fari fram hér á landi, en það hefur orðið mikil fjölgun á peningaþvættismálum hjá lögreglu sem orsakast af áherslubreytingum stjórnvalda og í löggæslu.

Aukið álag á landamærum
Í skýrslunni kemur einnig fram að fjölda mála sem tengjast óreglulegum fólksflutningum hefur aukist á ný eftir heimsfaraldur, þó málafjölda 2022 hefur ekki náð þeim fjölda sem var á árunum fyrir heimsfaraldur. Með auknu álagi á móttökukerfi lögreglu á landamærum og inn í landi, þá er aukin hætta á að brotahópar hagnýti sér viðkvæma stöðu þeirra, til að mynda með smygli á fólki og mansali.
Lögregla telur nauðsynlegt að lögregla og viðbragðsaðilar búi yfir nægum starfskrafti til að sinna móttöku, skráningu og eftirfylgni við þennan hóp.

Þarf á sterkum viðbrögðum stjórnvalda að halda
Greiningardeildin telur að það þurfi sterk viðbrögð frá stjórnvöldum til þess að sporna við þessari þróun, en annars mun skipulögð brotastarfsemi aukast enn frekar, sem felur í sér ógn við öryggi samfélagsins og fólks í viðkvæmri stöðu.
Þá þurfi að efla enn frekar getu lögreglu til að takast á við skipulagða brotastarfsemi á landamærunum og fjárfesta þarf í nauðsynlegum vél- og hugbúnaði til að tryggja skilvirka úrvinnslu og miðlun þeirra upplýsinga sem lögregla skráir. Einnig er mikilvægt að efla alþjóðlegt samstarf enn frekar.