„Ríkisstjórnin er að reyna að æsa fólk upp og blása til menningarstríðs til að bægja athyglinni frá áskorunum sem þau eru ófær um að takast á við og mistökum sem þau hafa sjálf gert, sem dæmi er kemur að fjármögnun og uppbyggingu nauðsynlegra samfélagsinnviða,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, um ólík sjónarmið sem heyrst hafa innan ríkisstjórnarinnar um flóttamenn og hælisleitendur.

„Nú er staðan þannig að fólk finnur kaupmátt sinn rýrna og greiðslubyrði af lánum rjúka upp,“ segir Jóhann Páll. „Það blasir við niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og gjaldahækkanir á almenning, sveitarfélögin eiga í basli með að veita lögbundna þjónustu vegna fjársveltis, og brátt mun umræða um Íslandsbankasöluna bresta aftur á af fullum þunga þegar Ríkisendurskoðandi skilar Alþingi skýrslu sinni um framkvæmdina,“ bætir hann við.

Þingmaðurinn segir að undir þessum kringumstæðum reyni ríkisstjórnin að gera fólk sem leitar eftir vernd á Íslandi vegna skelfilegra aðstæðna í heimalandi sínu að einhvers konar blóraböggli.

„Nú reyna þau, með yfirlýsingum ráðherra og stjórnarþingmanna hingað og þangað, að ala á þeirri hugmynd að þetta sé hið raunverulega vandamál á Íslandi,“ segir Jóhann Páll.

Guðmund Inga Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra greinir mjög á hvort einangraðar búðir skuli reistar fyrir hælisleitendur eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu. Jóhann Páll telur orðræðuna rykslátt.