Tuttugu og fimm ára gamall af­ganskur maður hefur verið á­kærður fyrir að stofna lífi sex ára sonar síns í hættu eftir að drengurinn drukknaði í skips­broti. Associa­ted Press greinir frá þessu í ítar­legri um­fjöllun í dag.

Ekki er að fullu ljóst af hverju grísk yfir­völd á­kærðu manninn en að­gerða­sinnar telja málið gefa vís­bendingu um herta stefnu í mál­efnum inn­flytj­enda. Notis Mitarachi, ráð­herra inn­flytj­enda­mála í Grikk­landi, hafnar því að málið sé til merkis um stefnu­breytingu.

„Þar sem um mann­tjón er að ræða er nauð­syn­legt að rann­saka hvort að fólk hafi hegðað sér á refsi­verðan hátt, hvort sem það var af gá­leysi eða vís­vitandi,“ segir Mitarachi.

Freistuðu þess að hefja nýtt líf í Grikk­landi

Maðurinn, sem kosið hefur að vera nafn­laus, flúði heima­land sitt Afgan­istan að­eins 9 ára gamall. Hann hefur tvisvar sinnum sótt um hæli í Tyrk­landi en var neitað í bæði skiptin.

Maðurinn freistaði þess þess að leita hælis í Grikk­landi og lagði af stað með son sinn frá tyrk­neska strand­bænum Izmir að kvöldi 7. nóvember á síðasta ári. Með þeim í för voru 24 aðrir flótta­menn og smyglarar sem tekið höfðu að sér að koma hópnum yfir til Grikk­lands.

Eftir að hafa klæðst björgunar­vestum var flótta­mönnunum skipað um borð í gúmmí­bát með mótor en stuttu eftir að báturinn lagði frá bryggju hoppuðu smyglararnir frá borði og skildu flótta­mennina eftir eina með um­sjón yfir bátnum.

Eftir nokkurra klukku­stunda siglingu í vonsku­veðri komu þeir að strönd grísku eyjarinnar Samos þar sem báturinn sigldi á stór­grýti og brotnaði í tvennt. Maðurinn missti sjónar á syni sínum en drengurinn drukknaði þrátt fyrir að hafa verið klæddur í björgunar­vesti. Manninum var sjálfum bjargað frá drukknun en fann ekki son sinn í öllu óða­gotinu.

Sam­kvæmt manninum, og öðrum flóttamanni sem var með í för, sigldu tveir bátar fram hjá flótta­mönnunum þar sem þeir börðust við að halda sér á floti í sjónum án þess að koma þeim til bjargar. Manninum tókst loks að koma sér á land og eftir nokkurra klukku­stunda leit náði hann að sann­færa hóp eftir­lif­enda um að koma með sér að sækja hjálp, sam­kvæmt frá­sögn mannsins.

Flóttamannabúðirnar á Samos eru þær þéttsetnustu í Grikklandi.
Fréttablaðið/Getty

Á­sakaður um að hafa yfir­gefið barn sitt

Snemma um morguninn mættu þeir fót­gangandi eftir­lits­mönnum á vegum land­helgis­gæslunnar en þá höfðu margir klukku­tímar liðið frá því að báturinn strandaði. Farið var með fólkið í flótta­manna­búðir eyjunnar til að bera kennsl á þau og skima þau fyrir CO­VID-19. Um svipað leyti upp­götvaði bátur land­helgis­gæslunnar lík drengsins á tor­færnum stað við ströndina. Frá­sögnum mannsins og land­helgis­gæslunnar ber þó ekki full­kom­lega saman.

Maðurinn var að­skilinn frá hinum flótta­mönnunum og settur í varð­hald vegna gruns að bera á­byrgð á dauða sonar síns. Talið er að ein lyki­lá­stæða kærunnar sé sú að þegar maðurinn fannst hafi hann ekki verið með syni sínum. Í kærunni er maðurinn á­sakaður um að hafa yfir­gefið barnið sitt hjálpar­vana með því að hafa hleypt honum um borð í ó­haf­fært skip í vonsku­veðri án við­eig­andi björgunar­vestis. Myndir í rann­sóknar­gögnum sýna hins vegar greini­lega að drengurinn var klæddur í björgunar­vesti þegar hann fannst.

Manninum var að lokum sleppt úr varð­haldi geng tryggingu og gegn þeim skil­yrðum að hann myndi ekki yfir­gefa landið. Honum hefur síðan verið út­hlutað tíma­bundnu hæli í Grikk­landi en án sonar síns segir maðurinn það ekki skipta sig máli hvar eða hvort hann lifir.

„Ég veit ekki hvernig ég get lifað án hans. Hann er sá eini sem ég átti að. Allar mínar vonir voru bundnar við hann,“ segir maðurinn um son sinn.