Flóttamenn og þeir sem leita eftir alþjóðlegri vernd eru vistaðir í mygluðu húsnæði í Grindavík. Bæjarráðið hótar að setja dagsektir á stjórnvöld.
„Það eru bæjarráði mikil vonbrigði að Vinnumálastofnun skuli ekkert hafa gert með afgreiðslu bæjarstjórnar, sem byggði á lögfræðiáliti, um að útleiga hússins fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd eða flóttamenn samræmist ekki samþykktri notkun hússins eða deiliskipulagi,“ bókaði bæjarráðið í gær.
Vinnumálastofnun leigir gamla félagsheimilið Festi fyrir hópana.
Í nýjasta blaði Víkurfrétta segir að húsnæðið hafi ekki verið í notkun vegna heilsuspillandi aðstæðna og myglu. Heilbrigðiseftirlitið hafi afturkallað rekstrarleyfi hússins.
Vinnumálastofnun segir í bréfi til bæjarins að Festi sé eina húsnæðið sem sé fast í hendi til þess að mæta brýnni húsnæðisþörf. Því þurfi að taka húsnæðið í notkun í þrátt fyrir afstöðu heimamanna.
Bæjarráðið hefur falið Bjarna Rúnari Einarssyni, byggingarfulltrúa, að óska upplýsinga frá Vinnumálastofnun og eiganda félagsheimilisins. Skal hann skoða í kjölfarið hvort tilefni geti verið til að beita heimildum, meðal annars dagsektum, en hámark dagsekta er 500 þúsund krónur.
Þá er Bjarna einnig falið að upplýsa sýslumann og lögregluyfirvöld um að starfsemi kunni að vera hafin þrátt fyrir að rekstrarleyfi hafi ekki verið gefið út.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Í upphaflegri útgáfu kom fram að Bjarni Rúnar væri skipulags- og byggingarfulltrúi. Rétt er að hann er byggingarfulltrúi en ekki skipulagsfulltrúi.