Flótta­menn og þeir sem leita eftir al­þjóð­legri vernd eru vistaðir í mygluðu hús­næði í Grinda­vík. Bæjar­ráðið hótar að setja dag­sektir á stjórn­völd.

„Það eru bæjar­ráði mikil von­brigði að Vinnu­mála­stofnun skuli ekkert hafa gert með af­greiðslu bæjar­stjórnar, sem byggði á lög­fræði­á­liti, um að út­leiga hússins fyrir um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd eða flótta­menn sam­ræmist ekki sam­þykktri notkun hússins eða deili­skipu­lagi,“ bókaði bæjar­ráðið í gær.

Vinnu­mála­stofnun leigir gamla fé­lags­heimilið Festi fyrir hópana.

Í nýjasta blaði Víkur­frétta segir að hús­næðið hafi ekki verið í notkun vegna heilsu­spillandi að­stæðna og myglu. Heil­brigðis­eftir­litið hafi aftur­kallað rekstrar­leyfi hússins.

Vinnu­mála­stofnun segir í bréfi til bæjarins að Festi sé eina hús­næðið sem sé fast í hendi til þess að mæta brýnni hús­næðis­þörf. Því þurfi að taka hús­næðið í notkun í þrátt fyrir af­stöðu heima­manna.

Bæjar­ráðið hefur falið Bjarna Rúnari Einars­syni, byggingar­full­trúa, að óska upp­lýsinga frá Vinnu­mála­stofnun og eig­anda fé­lags­heimilisins. Skal hann skoða í kjöl­farið hvort til­efni geti verið til að beita heimildum, meðal annars dag­sektum, en há­mark dag­sekta er 500 þúsund krónur.

Þá er Bjarna einnig falið að upp­lýsa sýslu­mann og lög­reglu­yfir­völd um að starf­semi kunni að vera hafin þrátt fyrir að rekstrar­leyfi hafi ekki verið gefið út.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í upphaflegri útgáfu kom fram að Bjarni Rúnar væri skipu­lags- og byggingar­full­trúi. Rétt er að hann er byggingarfulltrúi en ekki skipulagsfulltrúi.