Hópur flóttafólks sem hefur mótmælt brottvísunum og slæmum aðbúnaði sínum á Austurvelli í tæpa viku tilkynntu fyrr í kvöld að þau ætli nú að flytja mótmæli sín af Austurvelli. Það gera þau til að varðveita heilsu sína en vegna kulda og slæms veðurs hefur heilsu þeirra hrakað á meðan mótmælunum stendur. 

Fram kemur í tilkynningu sem hópurinn setti á Facebook-síðu sína fyrr í kvöld að tveir mótmælenda hafi fengið neitun um dvalarleyfi, einn hafi verið handtekinn fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum og bíði brottvísunar. Þá séu tveir til viðbótar sem hafi fengið símtal frá lögreglu og bíði þess nú að þeim verði tilkynnt um brottvísun sína.

Þar segir enn fremur að flóttafólk frá Ásbrú hafi nú staðið fyrir framan Alþingi í heila viku og að kröfur þeirra séu að fá fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar til að ræða þær fimm kröfur sem þau settu fram á sínum fyrsta mótmælafundi. Þar segir að á meðan slíkar umræður fara fram verði að stöðva brottvísanir.

„Það er auðvelt að eiga í samningaviðræðum við fólk sem þú getur vísað úr landi í stað þess að hlusta á þau,“ segir flóttafólkið.

Þeirra bíða fjöldi brottvísana í stað funda

Þau segja að yfirvöld hafi mætt mótmælunum með þögn og aðgerðaleysi og nú bíði þeirra fjöldi brottvísana í stað fjölda funda. Þau segja að þau hafi fundið fyrir miklum stuðningi í vikunni. Bæði hafi fólk komið með hlý föt og mat, hafi spjallað við þau, sungið, leikið og staðið með þeim gegn fólki sem staðráðið sé í að sýna fordóma í garð þeirra.

„Samstaðan skiptir okkur miklu máli. Höldum áfram að styðja og styrkja hvort annað,“ segja þau í yfirlýsingu sinni.

Þau segja að þrátt fyrir allan stuðning þá geti þau ekki neitað því að veðrið hafi áhrif á heilsu þeirra. Það sé meðal krafa þeirra að þeim sé tryggt aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Þau hafi því ákveðið að færa mótmælin af Austurvelli.

„Kröfur okkar eru skýrar: Að yfirvöld samþykki að hefja viðræður þar sem hlustað verði á kröfur flóttafólks; að hver einasta umsókn sé tekin til efnislegrar meðferðar, að fólk geti unnið á meðan því stendur, að flóttafólk fái jafnt aðgengi að heilbrigðiskerfinu og að einangrunarbúðunum á Ásbrú verði lokað.“

Þau segja að lokum að á meðan slíkt samtal eigi sér stað sé nauðsynlegt að hætt verði að vísa fólki út landi.

Færslu flóttafólksins má sjá hér að neðan.