Helstu áhyggjur þeirra sem hugleiða kaup á rafmagnsbíl er oftast nær drægni þeirra og vissulega gera margir þá kröfu að slíkur bíll komist lengra en snattið í borgarumferðinni. Svo virðist sem mælistikan hérlendis sé af mörgum sett við það að þeir komist til Akureyrar. Hér er sannarlega kominn einn slíkur.

Það var prófað fyrir stuttu og komust þeir Ómar Ragnarsson og Siggi Hlö þangað og gott betur á sitt hvorum bílnum. Það á reyndar við marga þá rafmagnsbíla sem í boði eru nú að vera með uppgefna drægni um og yfir 400 kílómetra, en 383 kílómetrar eru til Akureyrar.

Nú er Opel Ampera-E loks kominn til landsins og bætist við nokkra flóru rafmagnsbíla, en Opel Ampera-E hefur víða annarsstaðar í heiminum verið í boði frá árinu 2017. Opel Ampera-E er systurbíll Chevrolet Bolt og er það arfleifð frá eignarhaldi General Motors á Opel, en Opel hefur verið í eigu hins franska PSA Group frá ágúst 2017.

Opel Ampera-E reynslu 3.jpg

Magnaður akstursbíll

Sá sem þetta skrifar hefur aldrei orðið fyrir vonbrigðum við prófun á neinum rafmagnsbíl hingað til og það átti svo sannarlega ekki heldur við í prófunum á Opel Ampera-E. Þar fer aldeilis frábær akstursbíll sem hrikalega gaman er að aka. Hann er svo aflmikill að þegar vel er á honum tekið spólar hann hvar og hvenær sem er og hendist eins og vindurinn fyrir hornin.

Ökumaður verður hreinlega hissa á því að uppgefin hestöfl eru ekki fleiri en 204. Þegar þessir kostir hans komu í ljós var valin skemmtilegur lítill aksturshringur þar sem allir hans bestu eiginleikar birtust eins og þá var eins og um frábæran sportbíl væri að ræða. Það hefði reyndar þurft mjög góðan sportbíl til að geta elt hann þennan á þessum hring, svo hratt var hægt að fara á honum og hann lá alveg eins og klessa við ofsaaksturinn og á meðan vældi í dekkjunum, en lágur þyngdarpunktur bílsins tryggir honum mögnuð akstursgæði. Enda eru rafhlöður hans neðst í bílnum. Fjöðrunin er líka frábær og étur ójöfnur upp með góðri list. Svo er náttúrulega einn aðalkostur rafmagnsbíla óupptalinn, en það er hversu hljóðlátur aksturinn er.  

Opel Ampera-E reynslu 4.jpg

Réttur línudans stærðar rafhlöðu og bíls

Ástæðan fyrir því að Opel Ampera-E hefur ekki fengist hér á landi fyrr en nú er sú að Opel hefur ekki haft undan í framleiðslunni, svo vinsæll hefur hann verið. Það urðu þó straumhvörf nú á vordögum þegar stjórnendur Opel komu til fundar við Bílabúð Benna og kynntu sér starfsemi Orku náttúrunnar og sannfærðust þá um að Ísland væri kjörinn markaður fyrir rafmagnsbíla. Þá voru gerðar ráðstafanir til að flýta afgreiðslu á bílnum góða til landsins.

Opel Ampera-E er með 60 kWh rafhlöðum og uppgefna 423 km drægni. Svo mikil drægni næst þar sem bíllinn er ekki nema 1.691 kíló, en margir af þeim rafmagnsjeppum sem bjóðast hérlendis í dag eru með mun stærri rafhlöðum en þar sem þeir eru miklu þyngri bílar eru þeir með örlítið minni drægni. Því má alltaf velta fyrir sér hvaða stærð rafhlaða í hvaða gerð bíla hentar best. Líklega er með Opel Ampera-E komin einkar gáfuleg útfærsla á þessum línudansi.

Opel Ampera-E reynslu 5.jpg

Góður íverustaður en lítið skott

Hverjum finnst ávallt sitt hvað ytra útlit bíla varðar, en flestir munu líklega hallast að því að hér fari nokkur snoppufríður bíll. Hann er fremur hár til þaksins og fyrir vikið er höfuðrými allsstaðar gott. Bíllinn er þó frekar stuttur og kemur það niður á farangursrýminu, en með því að leggja aftursætin niður er það þó 1.274 lítrar, en 381 l. án þess. Eftirtektarvert er að sjá gott fótarýmið afturí og í aftursætunum ætti að fara mjög vel um farþega í hvaða stærð sem er.

Einn af stóru kostunum við Ampera-E er hve auðvelt er að setjast upp í hann, sætin eru í fullkominni hæð og Opel hefur tekist að hafa enga hindrun fyrir fætur við innstig. Leit er að því betra. Innrétting bílsins er lagleg og efnisvalið flott, en hafa verður í huga að dýrasta útfærsla hennar var í reynsluaksturbílnum.

Upplýsingagjöfin á skjánum fyrir miðju og bakvið stýrið er svo kapituli út af fyrir sig, en þar má fylgjast með hversu vel ökumaður stendur sig, allt um rafmagnsbúskap bílsins og endalaust annað. Verð Ampera-E er frá 4.990.000 kr. og í dýrustu útfærslu á 5.590.000 kr. Það verður að teljast gott verð fyrir mikinn bíl sem ódýrt er síðan að reka. Með Opel Ampera-E er komin aldeilis frábær viðbót í rafbílaflóruna hér á landi.

Opel Ampera-E reynslu 2.jpg

Kostir: Aksturseiginleikar, afl, drægni, innanrými

Ókostir: Fremur lítið skott

Rafmagnsmótorar, 204 hestöfl
Framhjóladrif

Drægni: 423 km
Eyðsla: 16,9 kWh/100 km
Mengun: 0 g/km CO2
Hröðun: 7,3 sek. í 100 km hraða
Hámarkshraði: 150 km/klst
Verð frá: 4.990.000 kr.
Umboð: Bílabúð Benna