Fellibylurinn Flórens náði landi á austurströnd Bandaríkjanna uppúr hádegi í dag. Fellibylurinn mælist nú einn að styrkleika en grannt hefur verið fylgst með styrk hans á leið yfir hafið og í marga daga hafa almannavarnir varað við honum. Þrátt fyrir að hann hafi misst töluvert af styrk sínum fer hann ekki fram hjá neinum.

Fjölmargir halda til í neyðarskýlum sem stjórnvöld hafa komið upp víða um landið. Hátt í tvær milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna óveðursins. Í Norður-Karólínu eru yfir þrjú hundruð þúsund heimili án rafmagns. 

Búast má við úrkomu næstu tvo til þrjá daga sem jafnast á við átta mánaða tímabil. Nú þegar rignir svakalega, vatn flóir í víða um götur og hvassviðrið hefur valdið umtalsverðum skemmdum.

Yfirborð sjávar gæti hækkað um rúmlega þrjá metra og einnig er búist við umfangsmiklum ferskvatnsflóðum.