Fanndís Birna Logadóttir
fanndis@frettabladid.is
Þriðjudagur 13. október 2020
23.00 GMT

Í dag eru þrjár vikur í að kjördagur renni upp í Bandaríkjunum en þann 3. nóvember næstkomandi verður kosið um næsta forseta Bandaríkjanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti mætir þar Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og forsetaframbjóðanda Demókrata, og er um sögulegar forsetakosningar að ræða.

Óhætt er að segja að síðustu vikur og mánuðir hafi verið viðburðarríkir og má búast við að næstu dagar fram að kosningum verði einnig verulega áhugaverðir.

Kosningakerfið í Bandaríkjunum, svokallað kjörmannakerfi, getur oft á tíðum verið ansi flókið og ekki furða að margir skilji það ekki alveg. Þá hefur kórónaveirufaraldurinn haft áhrif á framkvæmd kosninganna þannig að í ár munu fleiri greiða atkvæði utan kjörfundar, með svokölluðum póstatkvæðum, sem flækir málið enn frekar.

Hér fyrir neðan verður gert grein fyrir bæði kjörmannakerfinu og póstatkvæðum auk þess sem farið verður yfir helstu dagsetningar eftir kosningarnar.

Póstatkvæði

Kórónaveirufaraldurinn hefur haft gífurleg áhrif í Bandaríkjunum, tæplega átta milljón tilfelli smits hafa verið staðfest þar í landi og um 215 þúsund manns hafa nú látist. Vegna þessa hefur þurft að grípa til ýmissa ráðstafana fyrir forsetakosningarnar svo að sem flestir geti kosið án þess að þurfa að setja heilsu sína í hættu.

Flest ríki Bandaríkjanna hafa nú rýmkað reglur sínar þegar kemur að atkvæðagreiðslu vegna faraldursins en 45 ríki eru ekki með nein skilyrði, eða leyfa fólki að vitna til ótta við COVID-19, fyrir að fólk fái að kjósa utan kjörfundar á meðan fimm ríki eru með strangari reglur þegar kemur að atkvæðagreiðslu.

Í 35 ríkjum þurfa þeir sem vilja ekki mæta á kjörstað á kjördag að sækja um utankjörfundarseðla en í tíu ríkjum, auk Washington, D.C., eru seðlarnir sendir sjálfvirkt til allra skráðra kjósenda. Fólk hefur síðan ýmist val um að póstleggja seðlana sína eða að skila þeim inn á ákveðnum stað annað hvort fyrir eða á sjálfan kjördag.

Ríki með mismunandi reglur

Vegna aukinnar aðsóknar hafa margir lýst yfir áhyggjum um að þeir sem eru óvanir utankjörfundarseðlum geti gert mistök þegar seðlarnir eru útfylltir eða póstlagðir sem leiðir til þess að seðlarnir verða ógildir. Til þess að koma í veg fyrir slíkt gera 18 ríki kröfu um að kjósendur séu látnir vita ef eitthvað er að atkvæðinu. Til þess að tryggja að atkvæðin berist geta kjósendur í 44 ríkjum haft eftirlit með atkvæðinu eftir að því er skilað inn til þess að tryggja að það komist til skila.

Misjafnt er eftir ríkjum hvenær kjósendur þurfa að sækja um utankjörfundarseðla. Fjögur ríki eru ekki með umsóknarfrest en annars er fresturinn ýmist frá 9. október til 2. nóvember. Þá er það einnig misjafnt hvenær þarf að skila seðlunum inn en 28 ríki gera kröfu um að atkvæðin berist fyrir eða á kjördag. Í öðrum ríkjum þurfa seðlarnir að vera póstlagðir á eða fyrir kjördag.

Gagnrýni Trump

Það vekur athygli að Trump hefur lýst því yfir að hann sé mótfallinn póstatkvæðum en að á móti séu utankjörfundaratkvæði í lagi. Engu að síður er um nánast sama fyrirbæri að ræða, það er einfaldlega mismunandi eftir ríkjum hvort og þá hvernig kjósendur þurfa að sækja um slík atkvæði. Annars er ferlið í kringum þau alveg eins og er ýmist talað um póst- eða utankjörfundaratkvæði.

Trump hefur lagt mikla áherslu á að póstatkvæðagreiðsla geti leitt til kosningasvindls og jafnvel hótað að virða ekki niðurstöður kosninganna ef hann tapar þeim. Sérfræðingar hafa þá alfarið lagst gegn því að slík atkvæðagreiðsla leiði til kosningasvindls og er vísað til þess að póstatkvæði hafa verið notuð í miklum mæli síðastliðin ár, meðal annars í Bandaríkjunum.

Fyrir kosningarnar í ár voru fimm ríki Bandaríkjanna einungis með póstatkvæði og til að mynda greiddu 8,2 milljón manns atkvæði í kosningunum árið 2016 með póstatkvæðum (e. mail voting). Auk þess greiddu 24,8 milljón manns atkvæði utan kjörfundar (e. absentee voting) árið 2016 og 24,1 milljón manns greiddu atkvæði í utankjörstaðakosningum (e. early voting).

Þannig greiddu rúmlega 57 milljón manns, um 40 prósent þjóðarinnar, atkvæði með póstatkvæðum, utankjörfundaratkvæðum eða utankjörstaðaratkvæðum, og er búist við að sú tala verði enn hærri í ár. Eins og staðan er í dag hafa nú tæplega 11 milljón manns greitt atkvæði.

Niðurstöður geta tafist

Vegna mismunandi tímamarka um hvenær þarf að skila inn atkvæðum má búast við því að niðurstöður kosninganna liggi ekki fyrir fyrr en nokkrum dögum eða jafnvel vikum síðar. Þá tekur einnig tíma að telja þau atkvæði og gætu niðurstöðurnar því tafist enn frekar.

Engu að síður gera mörg stærstu fylkin kröfu um að póstatkvæðum verði skilað inn fyrir kosningarnar og er miðað við að atkvæði séu um viku að berast með pósti. Mögulega verður hægt að draga ályktanir um niðurstöðurnar strax eftir kosningarnar út frá niðurstöðum barátturíkjanna.

Kjörmannakerfið

Kosið er um forseta Bandaríkjanna á fjögurra ára fresti en hver forseti má aðeins sitja í tvö kjörtímabil, samkvæmt 22. viðauka stjórnarskrá Bandaríkjanna. Kjörmannakerfi er í Bandaríkjunum þar sem kjósendur kjósa ekki beint um hver verði næsti forseti Bandaríkjanna heldur kjósa þeir kjörmenn sem síðan kýs forseta.

Flokkarnir í hverju ríki fyrir sig tilnefna sína kjörmenn á vor og sumarmánuðunum árið sem kosningarnar fara fram og er venjan að velja kjörmenn sem eru dyggir stuðningsmenn flokkanna til að tryggja að þeir kjósi eftir flokkslínum.

Kjördagur í Bandaríkjunum fer ávalt fram þriðjudaginn eftir fyrsta mánudaginn í nóvember, og er sá dagur 3. nóvember í ár, en þar kjósa skráðir kjósendur í hverju ríki fyrir sig frambjóðanda ákveðins flokks og þar með kjörmenn flokksins. Kjörmenn kjósa síðan forseta Bandaríkjanna út frá niðurstöðum þeirra kosninga þann 14. desember í ár.

Kjörmenn ekki neyddir til að kjósa forsetaefni flokksins

Þrátt fyrir að kjörmenn í hverju ríki fyrir sig séu tilnefndir af flokki hvors frambjóðandans fyrir sig er ekki þar með sagt að kjörmennirnir þurfi að kjósa eftir flokkslínum. Í 33 ríkjum og Washington, D.C. eru kjörmenn skyldaðir til þess að kjósa sinn frambjóðanda en helmingur þeirra ríkja refsa ekki kjörmönnum fyrir að virða það að vettugi eða eru ekki með sérstaka verkferla til að koma í veg fyrir slíkt.

Alls eru því 17 ríki sem gera ekki þá kröfu að kjörmenn kjósi eftir flokkslínum. Eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016 voru til að mynda margir kjörmenn Repúblikana hvattir til að kjósa ekki Trump. Tveir kjörmenn ákváðu að lokum að kjósa ekki Trump og voru þeir báðir frá Texas, þar sem ekki er gerð krafa um að kjörmenn kjósi forsetaefni þess flokks sem þeir tilheyra.

Niðurstöður kosninga ekki endilega í samræmi við heildarfjölda atkvæða

Fjöldi kjörmanna er nokkurn veginn í samræmi við heildarfólksfjölda í hverju ríki fyrir sig en þó örlítið skekktur, minni ríkjunum í hag. Það getur þannig gerst að annar frambjóðandinn geti hlotið fleiri atkvæði í heildina en samt tapað kosningunum vegna fjölda kjörmanna.

Það hefur fjórum sinnum gerst í sögu Bandaríkjanna en Donald Trump vann til að mynda Hillary Clinton árið 2016 með 306 kjörmönnum gegn 232, þrátt fyrir að Clinton hafi fengið töluvert fleiri atkvæði í heildina. Fyrir það hafði Al Gore tapað fyrir George W. Bush árið 2000, Samuel J. Tiden tapað fyrir Ruterford B. Hayes árið 1876, og Grover Cleveland tapað fyrir Benjamin Harrison árið 1988.

Fjöldi kjörmanna í hverju ríki fyrir sig

Fjöldi þingmanna, og þar með kjörmanna, í hverju ríki fyrir sig er ákveðinn í kjölfar manntals í Bandaríkjunum sem fer fram á tíu ára fresti. Út frá manntalinu sem var tekið árið 2010 var ákveðið að í heildina yrðu 538 kjörmenn en manntal fyrir árið 2020 fer nú fram og gæti fjöldi kjörmanna næstu tíu ár breyst í samræmi við fólksfjölda ríkjanna.

Hvert ríki er með jafna marga kjörmenn og þingmenn ríkisins eru, bæði innan öldunga- og fulltrúadeildarinnar. Auðvelt er að reikna út fjöldann þar sem ávalt koma tveir öldungardeildmenn frá hverju ríki og er því hægt að taka saman fjölda fulltrúadeildarþingmanna og bæta tveimur við til að fá heildarfjölda kjörmanna.

Kalifornía er til að mynda með 55 kjörmenn, þar sem 53 fulltrúadeildarþingmenn koma frá ríkinu, Texas er með 38 kjörmenn, þar sem 36 fulltrúadeildarþingmenn koma frá ríkinu, Flórída er með 29 kjörmenn, þar sem 27 fulltrúadeildarþingmenn koma frá ríkinu, og svo framvegis.

Alríkishéruð og sjálfstjórnarsvæði

Eina undantekningin er alríkishéraðið Washington, D.C (District of Columbia) sem er aðeins með einn áheyrnarfulltrúa innan fulltrúadeildarinnar og engann í öldungadeildinni. Þau fá engu að síður þrjá kjörmenn í heildina í samræmi við 23. grein bandarísku stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að D.C. fái jafn marga kjörmenn eins og ef um ríki væri að ræða.

Bandarísku sjálfstjórnarsvæðin Púertó Ríkó, Bandaríska Samóa, Bandarísku Jómfrúreyjar, Gvam, og Norður -Maríanaeyjar, taka ekki þátt í kosningunum til forseta þrátt fyrir að eiga áheyrnarfulltrúa innan fulltrúadeildarinnar. Svæðin geta þó, og hafa, tekið þátt í forkosningum flokkanna.

Hér má sjá skiptingu kjörmanna eftir ríkjum Bandaríkjanna.

Tímalína eftir kosningar

3. nóvember 2020:

Kjördagur rennur upp í Bandaríkjunum. Öll ríki fara fram á að atkvæði séu póstlögð, eða þeim skilað inn, ýmist fyrir eða á sjálfan kjördag.

Lok nóvember/byrjun desember:

Ríkin eru með mismunandi tímamörk um hvenær þarf að staðfesta úrslit kosninganna í ríkinu en ef atkvæðum er mótmælt, réttarágreiningur er um þau, eða annað slíkt tefur talningu atkvæða, er ríkjum ekki refsað fyrir að fara fram yfir frestinn.

8. desember 2020:

Kosningarnar í öllum ríkjum þurfa að vera staðfestar. Þingið getur ekki véfengt niðurstöður kosninga sem staðfestar eru fyrir þessa dagsetningu í hverju ríki fyrir sig og ekki er hægt að véfengja þá kjörmenn sem hafa verið nefndir af ríkjunum sem réttmætir sigurvegarar kosninganna fyrir þessa dagsetningu. Svokallaður „Safe harbour“ frestur.

14. desember:

Kjörmenn koma saman í hverju ríki fyrir sig og greiða atkvæði sín til forseta Bandaríkjanna, sé það ekki gert þeir á hættu á að atkvæði þeirra verða ekki talin. Kjörmenn sem eru útnefndir á milli 8. og 14. desember geta greitt atkvæði en þingið getur tæknilega séð véfengt atkvæði þeirra. Allir ríkisstjórar þurfa að vera búnir að staðfesta kosningarnar í sínu ríki fyrir þessa dagsetningu og útnefna kjörmenn.

23. desember:

Kjörmenn þurfa að vera búnir að skila inn sínum atkvæðum til forseta öldungadeildarinnar, sem er einnig varaforseti Bandaríkjanna. Það er þó engin refsing fyrir að missa af þessum fresti.

3. janúar 2021:

Nýkjörið þing tekur við og þingmenn eiðissvarnir.

6. janúar 2021:

Þingið telur atkvæði kjörmanna og staðfestir kjör forseta. Ef enginn vinnur meirihluta (270 kjörmenn) þarf fulltrúadeild þingsins að kjósa um hver verði forseti í samræmi við 12. viðauka stjórnarskrá Bandaríkjanna. Í því tilfelli fær hvert ríki eitt atkvæði og vinnur sá sem fær 26 atkvæði. Öldungadeild þingsins sér síðan um að kjósa varaforseta.

20. janúar 2021:

Nýkjörinn forseti tekur við embætti.

Athugasemdir