Flokkur Vladimir Pútíns Rússlandsforseta, Sameinað Rússland, tapaði fimmtán sætum í borgarstjórnarkosningum í Moskvu. Fjölmörg mótmæli hafa átt sér stað í borginni í sumar eftir að Kremlin meinaði ákveðnum frambjóðendum stjórnarandstöðunnar að bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum.
Frambjóðendur Sameinaðs Rússlands buðu sig allir fram sem óháðir aðilar, þrátt fyrir að vera ekki óháðir í raun, til þess að fjarlægja sig frá flokkinum sem er sífellt að verða óvinsælari. Samkvæmt skoðunarkönnun sem gerð var fyrir kosningarnar voru aðeins um ellefu prósent kjósenda í Moskvu sem studdu flokkinn.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Alexei Navalny, biðlaði til almennings að kjósa sterkustu andstæðinga Sameinaðs Rússlands, óháð eigin stjórnmálaskoðunum. Hann vísaði til kosninganna sem eins konar þjóðaratkvæðisgreiðslu um flokkinn og Pútín.
Sameinað Rússland heldur þó enn meirihluta með 25 sætum. Kommúnistaflokkurinn náði þrettán sætum, en þeir voru áður með fimm sæti, Réttlátt Rússland náði þremur sætum og Yabloko náði fjórum sætum.
