Flokkur fólksins mælist með 9,7 prósenta fylgi í nýrri könnun Prósents. Þetta er bæting um 3,3 prósent frá síðustu könnun, sem birt var 19. nóvember. Flokkurinn mælist nú yfir kjörfylgi sínu frá síðustu alþingiskosningum, sem var 8,9 prósent. En þá þótti flokkurinn koma verulega á óvart og náði inn sex þingmönnum, einum í hverju kjördæmi.

Töluverðar hreyfingar eru á fylginu frá síðustu könnun hjá flestum flokkum. Turnarnir tveir frá síðustu könnun, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, halda hins vegar sinni stöðu og bæta reyndar aðeins við sig. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn með 23,2 prósent, sem er bæting um 2,1 prósent. Samfylkingin er komin yfir 20 prósenta múrinn, og hálfu prósenti betur, og bætir við sig 1,4 prósentum frá því í nóvember þegar flokkurinn tók stórt stökk eftir kjör nýs formanns.

Píratar bæta einnig við sig fylgi, fara úr 11,8 prósentum í 14,3 og mælast nú þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Taka þeir stöðu Framsóknarflokksins sem heldur áfram að dala. Framsókn missir 3,8 prósent milli kannana og mælist nú með 10,8 prósent. Flokkurinn mældist með 14,6 prósent í nóvember og 17,3 í júní en það er einmitt kjörfylgi flokksins úr síðustu alþingiskosningum.

Aðrir flokkar sem tapa nokkru fylgi eru Vinstri græn og Viðreisn. Vinstri græn mælast nú með 6,7 prósent en höfðu slétt 8 í nóvember. Hrap Viðreisnar er enn þá meira, fer úr 10,6 prósentum í 6,2. Fall um heil 4,4 prósent.

Einu stöðugu flokkarnir eru Miðflokkurinn með 4,5 prósent og Sósíalistaflokkurinn með 4, sem er innan við 0,3 prósenta sveifla frá síðustu könnun.

Samanlagt tapa stjórnarflokkarnir 3,1 prósenti og mælast nú aðeins með 40,7 prósent á móti 59,2 prósentum stjórnarandstöðu. Hafa ber þó í huga að Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn mælast rétt undir 5 prósenta þröskuldinum til að fá jöfnunarmann, þannig að 8,5 prósent falla niður dauð í þingmannafjölda.

Engu að síður væri stjórnin kolfallin yrði þetta niðurstaða kosninga, með aðeins 27 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 16, Framsóknarflokkurinn sjö og Vinstri græn fjóra.

Þegar litið er til stjórnarandstöðuflokkanna myndi Samfylkingin fá 15 þingmenn, Píratar tíu, Flokkur fólksins sjö og Viðreisn fjóra.

Þegar litið er til kynja, aldurs, tekju og búsetudreifingar er ekki að sjá stórar breytingar. Einna helst hafa Píratar styrkt stöðu sína hjá yngsta aldurshópnum, 18 til 24 ára, og á landsbyggðinni. En þar hefur Framsókn tapað miklu fylgi. Í nóvember mældist Framsókn stærsti flokkurinn á landsbyggðinni með 23 prósenta fylgi. Nú mælist fylgi hans 16 prósent, minna en hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.

Könnunin var netkönnun, framkvæmd 22. til 30. desember. Úrtakið var 4.000 og svarhlutfall 49,6 prósent.