Stjórn Flokks fólksins hefur brugðist við ásökunum Karls Gauta Hjaltasonar um að fjármál flokksins séu í ólestri með of miklum afskiptum formannsins, Ingu Sæland, með yfirlýsingu þar sem fram kemur að í einu og öllu sé farið að lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Þá er ítrekuð sú krafa að Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson segi af sér þingmennsku.

Sjá einnig: Sakar Ingu um að eyða opinberu fé í laun fjölskyldu

Stjórn Flokks fólksins hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeim ávirðingum sem Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður flokksins, bar á flokksformanninn Ingu Sæland um helgina í tengslum við það sem hann vill meina að séu óeðlileg afskipti hennar af fjármálum stjórnmálaflokksins.

Sjá einnig: Segir Karl Gauta vísvitandi segja rangt frá

„Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka hafa öll fjármál Flokks fólksins verið lögð árlega og skilvíslega undir skoðun löggilts endurskoðanda og Ríkisendurskoðunar,“ segir í yfirlýsingunni og þess jafnframt getið að ársreikningar flokksins hafi verið lagðir „fyrir aðalstjórn, kjörna skoðunarmenn, fjármála- og efnahagsmálanefnd, framkvæmdastjórn og landsfund Flokks fólksins til skoðunar og samþykktar áður en þeim er skilað til Ríkisendurskoðunar.“

Klaustursþingmenn segi af sér

Stjórnin segir einnig að í „þessu stranga eftirlitsferli“ hafi aldrei komið fram athugasemdir sem „gefa í skyn að fjármál Flokks fólksins séu vafasöm á nokkurn hátt.“ Þessu til stuðnings er vísað í úrdrátt af endurskoðuðum og samþykktum ársreikningi Flokks fólksins á vefsíðu Ríkisendurskoðunar og á heimasíðu flokksins.

Þá ítrekar stjórn Flokks fólksins kröfu sína um að þeir alþingismenn sem sátu drykkjufundinn á Klaustur Bar í nóvember, eða stjórnarfund Miðflokksins og Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta, eins og hann er kallaður, „ættu að axla ábyrgð á eigin gjörðum og segja strax af sér þingmennsku.“

Karl Gauti, sem starfar sem óháður þingmaður, sakaði Ingu Sæland um að verja opinberu fé í fjölskyldumeðlimi í grein í Morgunblaðinu um helgina og sagðist þar hafa margítrekað gagnrýni sína áður en honum var vikið úr flokknum.