„Þetta er búið að vera mjög áhugavert. Við erum búin að fylgjast með frá 25. ágúst og það hefur gefið okkur smá forskot að þegar við tökum saman tölurnar getum við gert þessar „trend“ línur og það er mjög áberandi að allir flokkarnir fóru rólega af stað. Það sést greinilega frá sirka 25. ágúst og til kannski fjórða eða fimmta september þá var rólegt hjá öllum flokkunum,“ segir Sigurður Svansson, eigandi Sahara, en hann hefur undanfarnar vikur fylgst náið með því hversu miklu stjórnmálaflokkarnir vörðu í auglýsingar á samfélagsmiðlum.
Hann segir áhugavert að skoða upplýsingarnar núna, eftir kosningar, og spá í það hvort og hverju peningarnir skiluðu flokkunum.
Aðeins er um að ræða auglýsingar á Facebook og Instagram af aðalsíðum flokkanna, ekki aðrar síður, eins og sérstakar síður sem eru reknar af einstaka frambjóðendum. Tímabilið sem um ræðir er 25. ágúst til 25. september, eða heill mánuður.
Flokkur fólksins eyddi mest í auglýsingar á samfélagsmiðlum og þar á eftir Miðflokkurinn en báðir flokkar eyddu meira en fjórum milljónum bara á samfélagsmiðlum. Sjálfstæðisflokkurinn er í þriðja sæti og Framsóknarflokkurinn í því fjórða en báðir flokkar eyddu meira en tveimur milljónum. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn eyddi langminnst, eða alls 168 þúsund, í auglýsingar fyrir samfélagsmiðla.

Miðflokkurinn með sprengju 8. september
Hann segir að Flokkur fólksins hafi farið fyrst af stað og svo hægt og rólega hafi allir flokkarnir bætt við sig í bæði fjölda auglýsinga og því fjármagni sem varið var í þær.
„Mesta sprengjan er frá Miðflokknum í kringum 8. september. Þá setja þeir greinilega allt í þetta og byrja að moka út auglýsingum en það er áhugavert að sjá hvernig þeir halda dampi og fara inn í sama form og allir hinir flokkarnir en Flokkur fólksins endar baráttuna í rosalegum hnykk og gáfu vel í lokin,“ segir Sigurður.
Sigurður segir að í samræmi við þetta sé hægt að sjá að flokkurinn sem bætti við sig flestum fylgjendum á samfélagsmiðlum, eða Facebook, er Flokkur fólksins og svo Miðflokkurinn þar á eftir. Það virðist þó ekki hafa skilað flokkunum eins í kjörkassann því Miðflokkurinn tapaði verulegu fylgi og fjórum þingmönnum á meðan Flokkur fólksins bætti við sig fjórum þingmönnum.
Sigurður segir að miðað við úrslit kosninganna sé ekki augljóst samhengi á milli þess hversu mikið flokkur auglýsir og hversu margir kjósa flokkinn.
„Það skiptir líka máli hvernig markaðsefni þú ert að senda út. Miðflokkurinn hengdi sig mikið á borða og einföld skilaboð og svona eiginleg áróðursskilaboð. Á tímabili voru þeir með 300 virkar auglýsingar á meðan aðrir flokkar voru töluvert undir því. En það sést í niðurstöðum kosninganna að þessi skilaboð voru ekki að ná til almennings, bæði hvað þeir voru að segja eða hvað þeir standa fyrir,“ segir Sigurður.

Samkeppni um athygli
Hann segir að á sama tíma megi sjá að skilaboð og herferðir Framsóknarflokksins og Flokks fólksins voru að virka. Hann segir að bæði hafi það verið skilaboðin og líka litaval þeirra og framsetning herferðanna.
„Framsókn yngdi sig upp með skærgrænum og bleikum,“ segir Sigurður sem telur þó Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, vera lykilatriði í því af hverju fylgi Framsóknar tók svo mikinn stökk.
„En þetta er samkeppni um athygli og þegar þú ert með auglýsingar á samfélagsmiðlum þarftu að vera með eitthvað grípandi og eitthvað öðruvísi og þegar allir flokkarnir eru að setja svona mikinn pening í auglýsinga er samkeppnin meiri. Ef allir eru með einfaldar auglýsingar þá situr minna eftir,“ segir Sigurður.
Hann segir að Flokkur fólksins hafi verið með öðruvísi auglýsingar og telur að það hafi kannski komið fólki á óvart hvernig herferðin var.
„Það má segja að maður hafi ekki búist við þessari nálgun frá þeim og þarf af leiðandi hafi þetta verið ákveðiinn "suprise" factor. Eftirá má svo segja að slagorð Framsóknar hafi hitt beint í mark.“
Hér að neðan má sjá hversu miklu flokkarnir eyddu:
Flokkur fólksins eyddi 4,604,575 krónum.
Miðflokkurinn eyddi 4,275,866 krónum.
Sjálfstæðisflokkurinn eyddi 2,819,971 krónum.
Framsóknarflokkurinn eyddi 2,644,114 krónum.
Samfylkingin eyddi 1,932,133.
Sósíalistaflokkur Íslands eyddi 1,118,445 krónum.
Viðreisn eyddi 930,267 krónum.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð eyddi 916,830 krónum.
Píratar eyddu 544,650 krónum.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn eyddi 168,880 krónum.
Hægt er að kynna sér betur tölurnar sem Sahara tók saman hér á vef þeirra.