Stjórnarflokkar Japans unnu stórsigur í kosningum á efri deild japanska þingsins í dag. Kosningarnar voru haldnar í skugga morðsins á fyrrum forsætisráðherranum Shinzo Abe, sem var skotinn til bana á kosningafundi á föstudaginn.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, flokkur Abe og núverandi forsætisráðherrans Fumio Kishida, vann ásamt samstarfsflokknum Komeito fleiri en 70 af þeim 125 þingsætum sem kosið var um. Miðað við útgönguspár virðist flokkur Kishida einn og sér hafa unnið allt að 69 sæti, sem myndi skila honum meirihluta án Komeito.

Jafnframt viðhéldu flokkar sem eru hlynntir breytingum á stjórnarskrá Japans nógu stóran meirihluta til að geta hrint breytingunum í framkvæmd.

Shinzo Abe hafði á ferli sínum talað fyrir því að stjórnarskránni yrði breytt til að aflétta hömlum á herafla Japans. Friðarstefna í utanríkismálum og takmörkuð hernaðarumsvif voru innsigluð í stjórnarskrána eftir ósigur Japans í seinni heimsstyrjöldinni og þjóðernissinnar hafa lengi haft það að markmiði að breyta þessu. Stuðningur landsmanna við aukin útgjöld til hernaðarmála hefur aukist að undanförnu og Kishida hefur sagst ætla að vinna að frumvarpi þess efnis til að leggja til umræðu á þingi.

Í sigurræðu sinni lýsti Kishida morðinu á Abe sem árás á lýðræðið og bað fyrir Abe í hljóði ásamt öðrum flokksleiðtogum. „Kosningarnar, sem eru hornsteinn lýðræðisins, voru litaðar af ofbeldi og það skiptir miklu máli að þær voru haldnar. Ég mun áfram vinna að baki brotnu við að verja lýðræðið,“ sagði Kishida.