Eva Þóra Hartmannsdóttir var í 25 vikna skoðun hjá Mæðravernd þegar hún rak augun í orðið negríti á sjúkraskýrslu sinni. Þegar hún spurði hjúkrunarfræðing út í orðið var henni sagt að þetta hafi alltaf verið svona.

Brá þegar hún sá orðið

„Mér brá rosalega mikið þegar ég sá þetta orð en þegar ég spurði hvað þetta þýddi fékk ég svarið að þetta hafi bara alltaf verið svona fyrir minn kynþátt.“ Eva segist ekki hafa fengið neinn rökstuðning fyrir því að fólk sé flokkað eftir kynstofnum og furðar sig á því að ekki sé notast við upprunaland líkt og í vegabréfum. „Þú heyrir aldrei um að neinn sé skilgreindur sem kákasíti þegar talað er um hvítt fólk.“

Ekkert leyndarmál hvaðan orðið kemur

Eva hafði aldrei heyrt orðið negríti áður og undrar sig á því að það sé notast við slíkt orð. „Það er ekkert leyndarmál að þetta kemur frá orðinu negri.“ Hún tekur fram að sé einhver rökstuðningur sem fylgir því að flokka fólk eftir kynþáttum þá væri auðvelt að finna faglegra orð.

„Ég er hjúkrunarnemi og ég veit að það er nýkomið rafrænt kerfi hjá mæðravernd og spyr mig hvers vegna það sé verið að skilgreina fólk svona í þessu fyrst þetta er svona glænýtt kerfi“ bætir Eva við.

Orðin vön mismunun

Hún lýsir því að hún hafi ekki gert sér almennilega grein fyrir alvarleika málsins fyrr en hún sagði systur sinni frá skoðuninni. Systir hennar hvatti hana til að vekja athygli á málinu þar sem það væri fáránlegt að enn þá væri verið að flokka fólk með þessum hætti. „Maður er svo vanur öllu svona, þetta er svo gegnumgangandi hlutur af lífinu að maður hættir að kippa sér upp við svona mál.“

Eva segist ekki áður hafa upplifað fordóma innan heilbrigðiskerfisins nema þegar kæmi að skriffinnsku málum líkt og þessum. Hún segist meðal annars ekki hafa verið upplýst fyrir fram um það hvers vegna hún þyrfti að fara í sykurþolspróf ólíkt öðrum vinkonum sínum en fékk svar eftir á um að það væri vegna aukinna líkra kvenna af afrískum uppruna á því að fá meðgöngu sykursýki. Niðurstöður úr sykurþolsprófi hennar voru neikvæðar.

Úreltar afsakanir og viðhorf

Hún vonast til þess að hætt verði að nota forneskjuleg hugtök til að flokka fólk, „Það er ekki eins og það sé ómögulegt að gera eitthvað í þessu“ en hún segir löngu orðið úrelt að segja að hlutirnir séu eins og þeir eru vegna þess að þeir hafi alltaf verið þannig.