Sigríður Andersen, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkaskipti Birgis Þórarinssonar úr Miðflokki yfir í Sjálfstæðisflokkinn sé ósvífni gagnvart kjósendum Miðflokksins. Birgir þurfi að skýra mál sitt betur gagnvart kjósendum. Þetta segir hún í Fréttavaktinni á Hringbraut.

„Auðvitað ekki annað hægt en að fagna slíkum liðsauka“

Sigríður segir að allir þingflokkar fagni liðsauka. „Ef þingmaður gengur inn í þingflokk þá lýsir hann því yfir að hann hafi áhuga á að vinna undir merkjum Sjálfstæðisflokksins og stefnum Sjálfstæðisflokksins, þá er auðvitað ekki annað hægt en að fagna slíkum liðsauka.“ Birgir þurfi þó að gera hreint fyrir sínum dyrum. „Eftir stendur hins vegar að það er hans mál síðan að ræða við og gera upp málin sín megin.“

Uppskera Miðflokksins í kosningunum er minni en vonir þeirra stóðu til samkvæmt Sigríði en málflutningur þeirra eigi þrátt fyrir það erindi inn á Alþingi. Þá sé ekkert sem bendi til samruna Miðflokksins og Sjálfstæðisflokks. „Ég held þó að það séu mál sem brýnt er að Miðflokkurinn standi vörð um.“

„Ég tek aldrei neinu með glöðu geði“

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var sömuleiðis í viðtali á Hringbraut. Aðspurður hvort hann tæki Birgi með glöðu geði stóð aðeins ekki svörum hjá honum. „Já. Ég tek aldrei neinu með glöðu geði að vísu.“ Honum þykir ákvörðunin þó ekki óeðlileg. „Þetta er ekkert nýtt, en þetta er óvenjulegur tími. Mér finnst þetta samt minna mál heldur en þegar þingmenn ganga úr skaftinu án þess að fara úr þingflokknum eins og gerist með VG síðast, sitja í nefndum þingsins og styðja ekki ríkisstjórnina. Mér finnst það enn merkilegra mál,“ segir Brynjar.

Þá hafi þessi ákvörðun ekki verið tekin af léttúð. „Ég geri bara ráð fyrir því að eitthvað sérstakt hafi komið upp sem hefur kallað á þetta. Einhverjar sérstakar ástæður sem ég bara veit ekki hverjar eru.“

Varðandi stöðuna sem upp er komin í Norðvesturkjördæmi telur Brynjar að seinni talningin eigi að gilda eða grípa eigi til uppkosningar. Það sé eðlilegt að kjósa aftur í einu kjördæmi samkvæmt Sigríði. „Lögin gera alveg ráð fyrir því. Það er auðvitað ekkert útilokað en einhverjar ástæður þurfa þá að liggja þar að baki.“