Þótt enn liggi ekki fyrir hvenær kosið verður til Alþingis voru flokkarnir byrjaðir að huga að undirbúningi strax í byrjun árs og fjöldi landsfunda var áformaður í vor. Svo kom heimsfaraldur sem setti strik í reikninginn. Viðreisn, Miðflokkurinn og Sósíalistar hafa frestað sínum fundum fram á haustið og bætast í hóp Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem boðað hafa til landsfunda í nóvember. Landsþingi Framsóknarflokksins verður frestað fram yfir áramót.

Fyrsti fundur haustsins verður á Ísafirði 28. og 29. ágúst þar sem Vinstri græn blása til flokksráðsfundar. Ekki er búist við miklum tíðindum af forystu flokksins en landsfundur flokksins verður ekki fyrr en á næsta ári.

Ráðherra gegn Rósu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var þó kjörinn varaformaður VG á síðasta flokksráðsfundi en hann hefur tilkynnt að hann hyggist hella sér af fullum krafti út í pólitíkina og gefa kost á sér til þings í næstu kosningum. Heimildir Fréttablaðsins herma að hann hafi augastað á Kraganum þar sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir er fyrir á fleti. Rósa Björk hyggst gefa aftur kost á sér til þings, en óhætt er að fullyrða að hún hafi átt í nokkuð stormasömu sambandi við flokksforystuna á kjörtímabilinu.

Viðreisn heldur sitt landsþing 26. og 27. september á Grand Hóteli. Þorsteinn Víglundsson, varaformaður flokksins, sagði nýverið af sér þingmennsku til að stýra fyrirtækinu BM Vallá, en Viðreisn hefur borist nýr liðsstyrkur því Davíð Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, hyggst bjóða sig fram til varaformanns á fundinum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er hins vegar óskoraður leiðtogi flokksins og verður væntanlega áfram.

Píratar hafa ekki boðað sinn aðalfund en stefnt er að því að hann verði sömu helgi og Viðreisn heldur sitt landsþing, síðustu helgina í september. Á fundinum verður kosið í nýjar trúnaðarstöður innan flokksins samkvæmt breyttu skipulagi, en flokkurinn hafnaði því í atkvæðagreiðslu að taka upp formannsembætti í flokknum.

Næstir í landsfundaröðinni eru Sósíalistar sem þurftu að fresta sínu þingi sem áformað var á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Þeir ætla að halda sitt sósíalistaþing í Þorlákshöfn 12. september. Sósíalistar hafa þegar hafið undirbúning að sínu fyrsta framboði til Alþingis. Flokkurinn er að byggja upp um allt land því stefnt er að framboði í öllum kjördæmum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er óskoraður foringi Miðflokksins, en ekki er sömu sögu að segja um varaformanninn Gunnar Braga Sveinsson, því Vigdís Hauksdóttir hefur þegar lýst yfir að hún stefni á varaformannsembættið.

Vigdís er þó ekki sögð á förum úr borgarmálunum og stefnir á borgarstjórastólinn sjálfan. Miðflokkurinn er einn þeirra flokka sem þurftu að fresta flokksþingi vegna heimsfaraldursins og fer hans þing fram 10. og 11. október.

Tveir landsfundir fara svo fram í nóvember; landsfundur Samfylkingarinnar verður á Hilton Reykjavík Nordica 6. og 7. nóvember og landsfundur Sjálfstæðisflokksins viku síðar í Laugardalshöll.

Logi Einarsson hefur ekki gefið annað til kynna en að hann hyggist halda áfram sem formaður. Eins og Fréttablaðið greindi frá í febrúar hefur nafni Dags B. Eggertssonar einnig skotið upp í umræðum um formennsku meðal flokksmanna. Telja margir að Dagur muni færa sig yfir í landsmálin og er varaformaður flokksins, Heiða Björg Hilmisdóttir, sögð líkleg til að byggja ákvörðun um sína framtíð, á ákvörðun Dags. Haldi hann áfram í borginni er hún líkleg til að söðla um og gefa kost á sér til þings, en ella freista þess að verða borgarstjóraefni flokksins.

Kynslóðir takast á

Litlar líkur eru taldar á því að Bjarni Benediktsson stígi til hliðar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Mikil togstreita hefur verið í flokknum á undanförnum misserum og ný kynslóð frjálslyndra afla verið að ryðja sér til rúms. Bæði hefur varaformanninum Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur verið hampað sem vonarstjörnu flokksins og framtíðarleiðtoga og þá hefur stalla hennar í ríkisstjórn, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, skotist upp að hlið hennar á miklum hraða allt frá því hún var kjörin ritari flokksins á landsfundi árið 2014, þá aðeins 24 ára gömul. Eftir sitja Brynjar Níelsson, Sigríður Á. Andersen og Guðlaugur Þór Þórðarson sem hefur staðið á hliðarlínu forystunnar um árabil þrátt fyrir mjög öflugt bakland í flokknum.

Ekki er útilokað að unga kynslóðin leiki aftur sama leikinn og mótframboð komi um ritaraembætti flokksins þar sem Jón Gunnarsson tók við af Áslaugu þegar hún tók við embætti dómsmálaráðherra í fyrra. Vegna þeirrar reglu flokksins að ráðherra geti ekki gegnt ritaraembættinu kann að vera að ungir og upprennandi fulltrúar af sveitarstjórnarstiginu renni auga til embættisins.

Lilja fær frest

Sigurður Ingi Jóhannsson hefur þegar lýst því yfir að hann hyggist halda áfram á formannsstóli í Framsókn. Orðrómur fór á kreik fyrr í vor um að Lilja Alfreðsdóttir hefði augastað á formannsstólnum en vegna heimsfaraldursins hefur hún nú fengið heilt ár til umhugsunar, því samkvæmt heimildum hefur flokksþingi, sem fara átti fram í apríl, verið frestað um heilt ár.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur verið í mikilli dýfu allt kjörtímabilið og mælst undir fimm prósentum á höfuðborgarsvæðinu. Þótt Lilja hafi verið meðal vinsælustu ráðherra ríkisstjórnarinnar samkvæmt könnunum fer því fjarri að þingsæti hennar sé öruggt.