„Já, ég sé fyrir mér að Sundabraut verði byggð. Það er líklegt en útfærslan er enn óljós,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Undir þetta tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar:

„Við munum leggja áherslu á að fara í Sundabraut, að mínu mati er Sundabraut partur af þéttingu byggðar og uppbyggingu atvinnufyrirtækja á Esjumelum,“ segir Þórdís Lóa. Hún bætir við að Sundabraut sé umhverfisvæn og góð framkvæmd.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, sagðist talsmaður Sundabrautar í kosningabaráttunni. Ekki er vitað til að andstaða sé meðal Pírata við Sundabraut. Flest bendir því til að ráðist verði í mannvirkið á kjörtímabilinu. Ef næst að mynda meirihluta milli flokkanna fjögurra.

Á blaðamannafundi í gær og í samtölum Fréttablaðsins við fulltrúa Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata komu fram áherslur sem vænta má að verði ræddar í ýmsum málefnum. Velferðarmál, hröð fjölgun íbúða, græn stefna í samgöngum og Sundabraut verða í kastljósinu.

„Það er alveg rétt að átök um borgarstjórastólinn eru líklegasta ástæða ágreinings í þessum viðræðum.“

Fulltrúar flokkanna halda þó að nokkru spilunum að sér „enda er ferðalagið sjálft fram undan“, eins og einn þeirra orðaði það.

„Málefni sem snúa að samgöngusáttmálanum, Borgarlínunni miðað við frumdrög og allt sem snýr að Miklubraut í göng og Sæbraut líka, eru líka á dagskrá,“ segir Þórdís Lóa um áherslur. Málefnalegur „þéttleiki“ sé innan hópsins.

Það mál sem helst gæti orðið bitbein og sundrað samstöðu er sjálfur borgarstjórastóllinn.

„Ég ætla ekkert að úttala mig um það hver eigi að verða borgarstjóri, hvenær eða hvernig það verður,“ sagði Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna.

Áður hafði Fréttablaðið spurt Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Einar hvort til greina komi að annar fulltrúi en þeir tveir úr hópi flokkanna fjögurra verði borgarstjóri. Hvorugur svaraði því beint.

Heimildir blaðsins herma að hjá Pírötum og innan Viðreisnar hafi verið rætt hvort lending í átökum Dags og Einars um borgarstjórastólinn gæti orðið ef einhver annar en þeir tveir yrði borgarstjóri.

Mjög óljós svör bárust frá þeim tveimur um þetta á fundinum í gær.

„Það er alveg rétt að átök um borgarstjórastólinn eru líklegasta ástæða ágreinings í þessum viðræðum,“ sagði innanbúðarmanneskja í Framsóknarflokknum í samtali við Fréttablaðið í gær.

Stíf krafa er meðal margra Framsóknarmanna um að þeir fái borgarstjórann. Aðrir telja að reynsluleysi Einars standi slíkri kröfu fyrir þrifum.

Tíu dagar voru liðnir frá kosningum í gær þegar Framsókn, Samfylking, Píratar og Viðreisn kynntu formlegar viðræður. Oddvitar allra flokkanna fjögurra lýstu ánægju með skrefið.

Dagur lýsti ánægju með upphaf formlegra viðræðna en gat þess að staðan væri flókin. Verkefnið væri að tryggja meirihluta heilt kjörtímabil.