Stjórnmálaflokkarnir hafa fengið nærri sjö og hálfan milljarð króna í ríkisframlög frá því að lögum um fjármögnun flokkanna var breytt árið 2006. Framlögin hafa hækkað mjög mikið á kjörtímabilinu sem er að líða en lækkað ögn eftir að faraldurinn skall á.

Framlög frá ríkinu getur hver flokkur fengið sem fær 2,5 prósent á landsvísu í kosningum og reiknast út frá kjörfylgi. Þá fær hver þingflokkur 12 milljóna króna grunnframlag og hver flokkur getur fengið kjördæmastyrk vegna kosningabaráttu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið langsamlega mest, nærri 2 milljarða króna. Mest fékk hann árið 2019, rétt tæpar 200 milljónir en fær nú 186.

Samfylkingin hefur fengið næstmest, 1.350 milljónir. Árin 2010 til 2013 fékk flokkurinn mest allra en árið 2017 var hann aðeins í sjötta sæti eftir mikinn kosningaósigur árið áður.

Vinstri græn hafa fengið tæpa 1,2 milljarða og Framsóknarflokkurinn tæpan 1,1. Hefur hinn svokallaði fjórflokkur fengið rúmlega 5,5 milljarða úr ríkissjóði.

Í þessum útreikningum eru ekki tekin inn fjárframlög frá sveitarfélögunum, en þau eru að jafnaði umtalsvert minni en frá ríkinu. Ársreikningar eru ekki komnir fram fyrir árin 2020 og 2021 og því byggir útreikningurinn á uppgefinni skiptingu framlaga frá Stjórnarráðinu að viðbættum þingflokkstyrknum.

Píratar hafa fengið rúmar 480 milljónir frá árinu 2013 þegar þeir komust fyrst á fjárlög. Viðreisn hefur fengið rúmar 290 milljónir og Flokkur fólksins rúmar 265 en þeir flokkar komust fyrst á fjárlög árið 2016. Ári seinna bættist Miðflokkurinn við og hefur fengið rúmar 370 eftir góðan kosningasigur.

Af flokkum sem ekki eru lengur á þingi má nefna Bjarta framtíð sem fékk tæpar 130 milljónir, Frjálslynda flokkinn sem fékk 96 og Dögun sem tók við búi Borgarahreyfingarinnar og fékk alls 121 milljón. Flokkur heimilanna og Íslandshreyfingin náðu aldrei inn manni en fengu samt á þriðja tug milljóna