Flokks­ráð ríkis­stjórnar­flokkanna funda í dag vegna nýs stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar.

Flokksráð Vinstri grænnna fundaði á Grand hótel og hófu sinn fund klukkan 14 á meðan mið­stjórn Fram­sóknar­flokksins fundaði úti á Granda og raf­rænt. Fundur þeirra hófst klukkan 15. Flokks­ráð Sjálf­stæðis­flokksins fundaði svo í Val­höll og hófst þeirra fundur líka klukkan 15.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins fundar í Valhöll.
Fréttablaðið/Eyþór

Fundirnir munu að öllum líkindum standa í nokkrar klukku­stundir og ef svo fer að stjórnar­sátt­málinn verði sam­þykktur hjá öllum flokkum þá munu þing­flokkarnir koma saman í fyrra­málið þar sem nýr ráðherralisti verður borinn upp og svo annað hvort samþykktur eða ekki.

Í kjölfarið á því verður haldinn blaða­manna­fundur þar sem sátt­málinn og ný ríkis­stjórn verða kynnt.

Greint var frá því í Frétta­blaðinu í dag að sam­kvæmt heimildum þá muni ráð­herrum Fram­sóknar­flokksins fjölga um einn í nýrri ríkis­stjórn Fram­sóknar­flokks, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri grænna. Sjálf­stæðis­flokkurinn og Vinstri græn halda sínum fjölda ráðu­neyta. Ráð­herrar nýrrar ríkis­stjórnar verða því tólf og fjölgar um einn frá því sem nú er.

Fjölmargir mættu á fund í Valhöll í dag.
Fréttablaðið/Eyþór