„Réttlætið sem fólst í því að bjarga þessu máli blasti við öllum en á sama tíma verðum við líka að fara að taka málaflokkinn allan til endurskoðunar og bæta hann,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um ákvörðun dómsmálaráðherra um að hætta við brottvísun sjö ára drengs og fjölskyldu hans til Pakistan. Dómsmálaráðherra segir eðli málaflokksins kalla á reglulega endurskoðun laganna.
Fjöldi fólks kom saman í Vesturbæjarskóla í dag á samstöðufund fyrir Muhammed litla og fjölskyldu hans. Um átján þúsund undirskriftir söfnuðust þar sem skorað var á stjórnvöld að að grípa inn í og hætta við að vísa fjölskyldunni úr landi.
Í kjölfarið birtist tilkynning frá dómsmálaráðuneytinu þar sem fram kom að brottvísun allra barna í þeim málum þar sem málsmeðferð þeirra hefur tekið lengur en 16 mánuði hafi verið frestað. Muhammed fellur undir þann hóp og verður því ekki sendur úr landi á morgun eins og fyrirhugað var.
Virðist sem vilji bak við lagasetninguna sé misskilinn
Logi segir ríkisstjórnina hafa sýnt lítinn vilja til að ráðast í nauðsynlega vinnu til að bæta lagagerðina í kringum málaflokkinn og framkvæmd laganna. „Í aðdraganda kosninga 2017 var lögum breytt tímabundið sem hluti af þinglokasamningum og það var gert samkomulag nánast allra formanna um það að á þessu kjörtímabili myndi þverpólitísk nefnd einbeita sér að því að breyta lögunum og framkvæmd þeirra sérstaklega með tilliti til stöðu barna og viðkvæmra hópa,“ segir Logi í samtali við Fréttablaðið.
„Vinna þeirrar nefndar var náttúrulega bara í skötulíki á meðan Sigríður Andersen var dómsmálaráðherra og var skipuð upp á nýtt núna þegar Áslaug Arna tók við,“ heldur hann áfram. „26 mánuðir af engu er of máttlaus frammistaða.“
Finniði fyrir meiri vilja hjá Áslaugu til að klára þessa vinnu en hjá Sigríði?
„Ég hef í sjálfu sér ekkert fyrir mér í því og ekkert orðið var við neina stefnubreytingu en hún verður að eiga sér stað núna,“ svarar hann en tekur fram að Samfylkingin, Viðreisn og Píratar muni nú leggja mjög mikinn þunga á að nefndin og vinna hennar verði sett í forgang. „Þannig að sem fyrst getum við séð niðurstöður sem geti orðið grundvöllur að mannúðlegri og betri útlendingalögum og framkvæmd þeirra á Íslandi.“
Hann segir þá að margt sé ágætt í úlendingalögum eins og þau séu núna og að þverfaglegur þingmannahópur sammælst um þau. „En svo virðist sem framkvæmd þeirra hafi í rauninni verið á þann hátt að einhvern veginn hafi fólk ekki áttað sig á þeim vilja sem að var á bak við lagasetninguna,“ útskýrir hann. „Þannig það þarf bara að skýra það og gera það alveg klárt svo að við Íslendingar getum staðið upprétt sem þjóð og bæði sýnt mannúð og verið í fararbroddi í mannréttindum.“

Fulltrúi Samfylkingar ekki á fundinum
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir það alrangt hjá Loga að ríkisstjórnin hafi setið auðum höndum eða sýnt málaflokknum lítinn áhuga.
„Þverpólitíska þingmannanefndin var aftur sett á laggirnar í haust, þau funduðu síðast í síðustu viku um stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu,“ segir ráðherrann í samtali við Fréttablaðið. „Það er eitt af þeim atriðum sem ég óskaði sérstaklega eftir að nefndin myndi ræða og skoða lögin og framkvæmdina í því ljósi. Formaður Samfylkingarinnar talar digurbarkalega núna en fulltrúi sama flokks sá einmitt ekki ástæðu til að mæta á þann fund í síðustu viku.“
„Lögin sem við vinnum eftir í dag er niðurstaða þverpólitískrar vinnu og samþykkt nær samhljóða á Alþingi. Ég hef talið skynsamlegt að áfram séu þessi mál rædd af yfirvegun í slíkri nefnd til að ná tilskyldum árangri í málaflokknum en eðli málaflokksins kallar á reglulega endurskoðun til að meta hvað megi betur fara,“ segir hún að lokum.