„Rétt­lætið sem fólst í því að bjarga þessu máli blasti við öllum en á sama tíma verðum við líka að fara að taka mála­flokkinn allan til endur­skoðunar og bæta hann,“ segir Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, um á­kvörðun dóms­mála­ráð­herra um að hætta við brott­vísun sjö ára drengs og fjöl­skyldu hans til Pakistan. Dómsmálaráðherra segir eðli mála­flokksins kalla á reglu­lega endur­skoðun laganna.


Fjöldi fólks kom saman í Vestur­bæjar­skóla í dag á sam­stöðu­fund fyrir Mu­hammed litla og fjöl­skyldu hans. Um á­tján þúsund undir­skriftir söfnuðust þar sem skorað var á stjórn­völd að að grípa inn í og hætta við að vísa fjöl­skyldunni úr landi.


Í kjöl­farið birtist til­kynning frá dóms­mála­ráðu­neytinu þar sem fram kom að brott­vísun allra barna í þeim málum þar sem máls­með­ferð þeirra hefur tekið lengur en 16 mánuði hafi verið frestað. Mu­hammed fellur undir þann hóp og verður því ekki sendur úr landi á morgun eins og fyrir­hugað var.


Virðist sem vilji bak við laga­setninguna sé misskilinn


Logi segir ríkis­stjórnina hafa sýnt lítinn vilja til að ráðast í nauð­syn­lega vinnu til að bæta laga­gerðina í kringum mála­flokkinn og fram­kvæmd laganna. „Í að­draganda kosninga 2017 var lögum breytt tíma­bundið sem hluti af þing­loka­samningum og það var gert sam­komu­lag nánast allra formanna um það að á þessu kjör­tíma­bili myndi þver­pólitísk nefnd ein­beita sér að því að breyta lögunum og fram­kvæmd þeirra sér­stak­lega með til­liti til stöðu barna og við­kvæmra hópa,“ segir Logi í sam­tali við Frétta­blaðið.


„Vinna þeirrar nefndar var náttúru­lega bara í skötu­líki á meðan Sig­ríður Ander­sen var dóms­mála­ráð­herra og var skipuð upp á nýtt núna þegar Ás­laug Arna tók við,“ heldur hann á­fram. „26 mánuðir af engu er of máttlaus frammistaða.“


Finniði fyrir meiri vilja hjá Ás­laugu til að klára þessa vinnu en hjá Sig­ríði?
„Ég hef í sjálfu sér ekkert fyrir mér í því og ekkert orðið var við neina stefnu­breytingu en hún verður að eiga sér stað núna,“ svarar hann en tekur fram að Sam­fylkingin, Við­reisn og Píratar muni nú leggja mjög mikinn þunga á að nefndin og vinna hennar verði sett í for­gang. „Þannig að sem fyrst getum við séð niður­stöður sem geti orðið grund­völlur að mann­úð­legri og betri út­lendinga­lögum og fram­kvæmd þeirra á Ís­landi.“


Hann segir þá að margt sé á­gætt í ú­lendinga­lögum eins og þau séu núna og að þver­fag­legur þing­manna­hópur sam­mælst um þau. „En svo virðist sem fram­kvæmd þeirra hafi í rauninni verið á þann hátt að ein­hvern veginn hafi fólk ekki áttað sig á þeim vilja sem að var á bak við laga­setninguna,“ út­skýrir hann. „Þannig það þarf bara að skýra það og gera það alveg klárt svo að við Ís­lendingar getum staðið upp­rétt sem þjóð og bæði sýnt mann­úð og verið í farar­broddi í mann­réttindum.“

Muhammed mun mæta aftur í skólann til vina sinna á morgun í stað þess að halda út á flugvöll.
Fréttablaðið/Valli

Full­trúi Sam­fylkingar ekki á fundinum


Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra segir það al­rangt hjá Loga að ríkis­stjórnin hafi setið auðum höndum eða sýnt mála­flokknum lítinn á­huga.


„Þver­pólitíska þing­manna­nefndin var aftur sett á lag­girnar í haust, þau funduðu síðast í síðustu viku um stöðu barna og fólks í við­kvæmri stöðu,“ segir ráð­herrann í sam­tali við Frétta­blaðið. „Það er eitt af þeim at­riðum sem ég óskaði sér­stak­lega eftir að nefndin myndi ræða og skoða lögin og fram­kvæmdina í því ljósi. For­maður Sam­fylkingarinnar talar digur­barka­lega núna en full­trúi sama flokks sá ein­mitt ekki á­stæðu til að mæta á þann fund í síðustu viku.“


„Lögin sem við vinnum eftir í dag er niður­staða þver­pólitískrar vinnu og sam­þykkt nær sam­hljóða á Al­þingi. Ég hef talið skyn­sam­legt að á­fram séu þessi mál rædd af yfir­vegun í slíkri nefnd til að ná til­skyldum árangri í mála­flokknum en eðli mála­flokksins kallar á reglu­lega endur­skoðun til að meta hvað megi betur fara,“ segir hún að lokum.