„Þetta verður ekki einfaldasti dagur þingsins, hvorki í umræðu né atkvæðagreiðslu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi þingforseti, um verkefni Alþingis á morgun, þegar gengið verður til atkvæða um gildi kosninga.

Í greinargerð undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar sem birt var á vef þingsins í gær eru engar tillögur til þingsins. Þær verða sennilega ekki lagðar fram fyrr en á morgun, sama dag og greidd verða um þær atkvæði.

Von er á nokkrum tillögum; einni eða tveimur um uppkosningu, einni um þriðju talninguna og einni um staðfestingu allra kjörbréfa, má búast við nokkuð flókinni atkvæðagreiðslu í þingsal.

Þorgerður Katrín segir ómögulegt að sjá formið á atkvæðagreiðslunni fyrir á þessari stundu. Það fari eftir því hvernig tillögurnar líti út.

„Við erum að reyna að gera þetta eins vel og hægt er og ætlum að vanda okkur,“ segir Þorgerður og vísar þar bæði til þingmanna og starfsliðs þingsins. Hún mun ræða við formenn allra þingflokka um dagskrá morgundagsins á fundi klukkan þrjú í dag.

Um atkvæðagreiðsluna sjálfa segir Þorgerður: „Ég er sannfærð um að hver og einn þingmaður mun greiða atkvæði eftir sinni samvisku og sannfæringu, af virðingu við löggjafarvaldið og lýðræðið.“