Ulf Kristersson er flokksleiðtogi Hófsamra hægrimanna í Svíþjóð, og hefur verið það frá árinu 2017. Hann byrjaði stjórnmálaferil sinn sem formaður Ungra hægrimanna á tíunda áratugnum. „Hans hugmyndafræði innan flokksins hefur breyst talsvert mikið,“ segir Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö.

„Við getum sagt að það sé bæði frjálslyndur vængur innan flokksins og vængur sem er meira íhaldssamur. Upprunalega tilheyrði hann þessum frjálslynda væng, þar sem lögð var áhersla á opin landamæri og ýmislegt í anda frjálslyndrar hugmyndafræði. En hann hefur á síðustu árum orðið íhaldssamari og flokkurinn líka,“ segir Gunnhildur.

Nýja ríkisstjórnin í Svíþjóð samanstendur af Hófsömum hægrimönnum, Kristilegum demókrötum og Frjálslynda flokknum. Saman ná flokkarnir ekki meirihluta og njóta þeir því stuðnings Svíþjóðardemókrata, sem verja stjórnina vantrausti án þess að fá ráðherrastóla. Saman hafa flokkarnir fjórir 176 sæti á sænska þinginu og stjórnarandstaðan 173 sæti.

Reyndi síðast árið 2018

Kristersson fékk síðast tækifæri til að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar árið 2018, en þá tók rúma fjóra mánuði að mynda ríkisstjórn. Fyrst þegar hann fékk stjórnarmyndunarumboð mistókst honum að komast að samkomulagi við aðra flokka en í síðara skiptið tókst honum að komast að samkomulagi, en þingið hafnaði ríkisstjórninni.

„Ég held að hann sé búinn að hafa þessi fjögur ár til þess að ná þessum flokkum sem styðja og eru í ríkisstjórn núna, saman aftur. Árið 2018 riðlaðist þessi hefðbundna blokka­pólitík sem við höfum haft í langan tíma í Svíþjóð og hann er í raun búinn að mynda nýja borgaralega blokk,“ segir Gunnhildur og bætir við að sú blokk virðist stöðugri en stjórnarandstöðublokkin.

Gunnhildur segir Kristersson vera vinsælan, en þó ekki jafnvinsælan og fráfarandi forsætisráðherra, Magdalena Andersson. „Hún bar höfuð og herðar yfir alla aðra og það hefur nú kannski ekkert endilega breyst en hún hafði unnið í því að verða svona landsmóðir Svíþjóðar og ég held að Ulf sé ekki kominn á þann stað, en hann nýtur trausts,“ segir hún.

Andersson og Kristersson unnu vel saman, þrátt fyrir að Kristersson hafi setið í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili. Gunnhildur segir það skipta máli fyrir kjósendur að hafa ekki leiðtoga sem málar sig út í horn og getur ekki unnið með stjórnarandstöðunni.

Útlendingamál fyrirferðarmikil

Í síðustu viku, þegar opinberað var að flokkarnir fjórir hefðu komist að samkomulagi, var opinberaður stjórnarsáttmáli. „Það eru flóttamannamálin sem fá stórt pláss í því samkomulagi. Það á að herða mjög á þeim og reyna að minnka straum flóttamanna, og minnka til dæmis tækifæri aðstandenda flóttamanna til að koma til Svíþjóðar og annað slíkt,“ segir Gunnhildur.

Önnur mál, eins og orkumál og glæpamál, komust einnig inn í stjórnarsáttmálann. „Lög og regla virðast vera ofarlega á þessum lista. Svo eru það orkumálin, það er ofarlega á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að byggja upp kjarnorku aftur,“ segir Gunnhildur en stefnumál ríkisstjórnarinnar í orkumálum fóru frá því að nota endurnýjanlega orku yfir í að nota kolefnishlutlausa orku, eins og kjarnorku.

Að sögn Gunnhildar eru málefnin athyglisverð að því leyti að þau séu umfangsmikil og erfitt að koma þeim í gegn á einu kjörtímabili. „Þetta er ekki eitthvað sem þú byggir upp á einu kjörtímabili, þetta tekur allavegana fimm til tíu ár að byggja upp.“

Svíþjóðardemókratar sterkastir

Gunnhildur segir að Kristersson hafi ekki verið sá sem opnaði fyrst á samstarf við Svíþjóðardemókrata, en lengi hefur verið talið að þeir væru erfiðir í samstarfi. „Það er hann sem hefur samt sem áður komið því á koppinn og leitt það samstarf,“ segir hún.

Svíþjóðardemókratar eru að mati Gunnhildar sigurvegarar kosninganna og þessa útspils sem ríkisstjórnin er og að þeir hafi gríðarleg áhrif og völd á bak við tjöldin, en flokkurinn fékk ekki neina ráðherrastóla. „Þeir hafa mjög mikil áhrif og völd á bak við tjöldin. Ég myndi segja að stór hluti af stjórnarsáttmálanum séu mál sem þeir hafa greinilega haft mikil áhrif á, þrátt fyrir að þeir sitji ekki í ríkisstjórn.“

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, er sammála Gunnhildi. „Svíþjóðardemókratar eru í ótrúlega sterkri stöðu,“ segir Eiríkur en hann segir þá vera þjóðernispopúlískan flokk sem hafi verið á jaðri sænskra stjórnmála í langan tíma, „og í rauninni lengst af útskúfaður af öðrum stjórnmálaflokkum frá siðaðri stjórnmálaumræðu.

Gunnhildur segir Kristersson ekki jafnvinsælan og fráfarandi forsætisráðherra, Magdalena Andersson.

Flokkurinn á rætur sínar að rekja í nasistaflokk millistríðsáranna en svo gerist það árið 2008, þegar núverandi forusta tekur við flokknum, Jimmie Åkesson og fleiri samstúdentar hans, að þeir fjarlægja þessa nýnasísku ásýnd sem hafði verið á flokknum,“ segir Eiríkur.

Flokkurinn komst fyrst inn á þing árið 2010 en Eiríkur segir flokkinn hafa náð almennilegum stuðningi í kosningunum árið 2018 og svo á þessu ári, þar sem flokkurinn er sá annar stærsti á þinginu eftir kosningarnar.

„Þetta gerist í raun ekki með breyttri stefnu flokksins, heldur verður stefna þeirra álitin ásættanlegri eftir því sem tíminn hefur liðið. Í rauninni hefur þeim tekist að breyta orðræðunni í sænskum stjórnmálum í innflytjendamálum fremur en að breyta í grundvallar­atriðum eigin stefnu.“

Eiríkur segir Svíþjóðardemókrata í sterkri stöðu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gunnhildur segir Svíþjóðardemókrata vera í óskastöðu, þeir standi utan ríkisstjórnarinnar en hafi samt mikil áhrif á stefnu hennar. „Þetta er í rauninni óskastaða fyrir Svíþjóðardemókratana, þeir hafa mjög mikil völd á bak við tjöldin en þeir geta snúið sér annað, þeir geta unnið með öðrum flokkum ef ríkisstjórnin gerir ekki það sem þeir vilja,“ segir hún.

„Eina ástæðan fyrir því að þeir sitja ekki formlega í ríkisstjórn er að Frjálslyndi flokkurinn, sem var minnsti ríkisstjórnarflokkurinn, hafði gefið það út að þeir myndu ekki samþykkja það að Svíþjóðardemókratarnir settust í stjórn,“ segir hún.

„Það kæmi mér ekki að óvart ef ríkisstjórnarsamstarfið yrði mjög flókið, það er það bæði þegar það er minnihlutastjórn, eins og reglan er hér, og líka þegar það eru flokkar sem standa svona hugmyndafræðilega langt hvor frá öðrum, eins og Frjálslyndir gera. Þeir eru í raun mjög langt frá Svíþjóðardemókrötunum þó að þeir hafi komist að samkomulagi um þennan stjórnarsáttmála,“ segir Gunnhildur.