Sér­fræðingar Veður­stofunnar hafa rann­sakað flóð­bylgjuna sem skall á land á Suður­eyri á þriðju­daginn og munu út­búa tölvu­líkan af henni til að fá betri hug­mynd um hæð hennar. Í ljós hefur komið að bylgjan var ekki jafn stór og gert var ráð fyrir í fyrstu.

Þetta kemur fram á vef Veður­stofunnar. Þar segir að erfitt sé að gera sér grein fyrir því núna hve há flóð­bylgjan var og hversu kraft­mikil. Hún hafi þó ekki verið eins há og talið var í fyrstu en samt nógu há til að fara yfir varnar­garðinn. Á landi var hné­djúpur krapa­blandinn sjór eftir hana, sem sums staðar náði upp á mið læri.


Talið er að varnar­garðurinn hafi dregið vel úr krafti bylgjunnar og gert mikið gagn. Fyrir á­hrif hans kastaðist sjórinn hátt í loft upp og náði því upp á glugga á annarri hæð. Megin­flóð­bylgjan hefur þó verið mun lægri.

Krapablandaður sjór stöðvaðist um 1,5 metra frá þessari bílskúrshurð.
Einar Ómarsson

Höfðu varað við flóðbylgjunni

Starfs­menn Veður­stofunnar hafa unnið við mælingar á á­hrifum flóð­bylgjunnar síðustu daga. Bylgjan myndaðist þegar snjó­flóð féll úr gilinu ofan við Norður­eyri en þá var há­flóð og stór­streymi. Sjávar­staðan var því með hæsta móti þegar snjó­flóðið féll.


Ofan­flóða­vakt Veður­stofunnar hafði varað Al­manna­varnir við mögu­leikanum á flóð­bylgju við þessar að­stæður áður en hún myndaðist. Þeim upp­lýsingum komu Al­manna­varnir svo á­fram til hafnar­yfir­valda.

Hér má sjá áhrifasvæði flóðbylgjunnar. Kortið var búið til eftir frumniðurstöðum mælinga.
Veðurstofa Íslands

Þegar bylgjan skall á varnar­garðinum kastaðist krapa­blandaður sjór víða yfir þök á nær­liggjandi húsum. Í einu húsanna hélt fólk að það væri komið steypi­regn þegar sjórinn skall á þakinu og streymdi fram af þakkantinum.


Bíll, sem var lagt í sjö til átta metra fjar­lægð frá varnar­garðinum, flaut upp þegar flóð­bylgjan var kominn á land og hafði færst um tvo metra þegar komið var að honum. Speglar bílsins sem standa í 130 sentí­metra yfir jörðu höfðu þá lagst aftur.


Á­hrifa flóð­bylgjunnar gætti þá frá höfninni og út eftir öllum bænum að Brjóti við endi­mörk hans. Engin um­merki sáust utar.