Vélin sem ber heitið Roc fór í sitt níunda flug frá upphafi í gær og það annað með geimferju innanborðs þegar tilraunaflug stóð yfir í rúma sex tíma í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu. Í samfloti var geimfarið Talon en með því færðist Stratolaunch nær því að hefja tilraunir með að skjóta Talon úr vélinni. Vonir standa til þess að fyrstu tilraunir til að hefja Talon til flugs eigi sér stað síðar á þessu ári. Roc fór alla leiðina upp í 22.500 feta hæð og fór í fyrsta sinn út fyrir flugumferðarsvæði Mojave-eyðimerkurinnar.

Vélin er nefnd eftir gríðarstórum goðsagnakenndum fugli sem var sagður vera svo stór að hann gat borið fullvaxna fíla undir væng er hann flaug og er hún hönnuð til að bera og virka sem fljúgandi skotpallur fyrir geimskip. Hún er búin tveimur mismunandi skrokkum og verða flugstjórinn og varaflugstjórinn staðsettir fremst í hægri skrokk vélarinnar og fluggangakerfið verður í þeim vinstri.

Tölfræðin á bak við þessa einstöku vél
mynd/Graphic news

Vængir vélarinnar, sem eru 117 metrar eða tæplega jafnlangir og hefðbundinn knattspyrnuvöllur, eru staðsettir efst á vélinni, sem mun hjálpa við að tryggja öryggi þegar geimskipum er „sleppt“ og þeim skotið út í geim frá miðhluta vélarinnar. Vonir standa til að vélin eigi eftir að lækka kostnað við geimferðir og auðvelda þar með almenningi aðgang að slíkum ferðum í framtíðinni.

Verkefnið hefur staðið yfir í tólf ár og kom Íslandsvinurinn Paul Allen, einn stofnenda Microsoft, að því ásamt flughönnuðinum Burt Rutan en þeir voru að baki Space­ShipOne, fyrsta einkarekna geimfarinu árið 2004. Áhersla var lögð á að hanna Roc-flugvélina, geimfar og öruggt skiptikerfi en þegar Allen lést árið 2018 var Roc það eina sem var tilbúið.

„Hið ótrúlega teymi okkar heldur áfram að vinna í því að feta næstu skref í þessari áætlun okkar. Þökk sé starfsfólki okkar þá færumst við nær því að ná öruggri losun og fyrsta hljóðfráa fluginu (e. hypersonic flight). Við þurfum að rannsaka betur forsendur þess að sleppa vélinni í framtíðartilraunum,“ sagði framkvæmdastjóri Stratolaunch, Zachary Krevor, í yfirlýsingu eftir tilraunirnar og segist spenntur að kynna fyrir almenningi hvernig næstu skref ganga.

„Við erum spennt fyrir framhaldinu og vonumst til að geta sýnt almenningi frá tilraunum okkar á næstunni.“