Einka­þota flýgur nú hvítum blóð­kornum úr þremur Ís­lendingum til Kanada þar sem þau verða notuð til að þróa mót­efni fyrir kórónu­veirunni. Eins og Frétta­blaðið greindi frá í síðustu viku vinnur Ís­lensk erfða­greining nú í sam­starfi við há­skólann Uni­versity of British Columbia að því að þróa mót­efni fyrir veirunni.

Í kvöld­fréttum RÚV kom fram að blóð­kornunum hvítu yrði flogið í kvöld með einka­þotu frá landinu til Kanada. Blóð­kornin voru tekin úr þremur Ís­lendingum sem voru í Blóð­bankanum í tvo klukku­tíma hver í dag til að láta taka úr sér blóð. Áður höfðu hvít blóð­korn úr þremur öðrum Ís­lendingum einnig verið send út.

Allir Ís­lendingarnir mældust með mikið magn mót­efnis í blóði sínu í mót­efna­mælingum Ís­lenskrar erfða­greiningar. Enginn þeirra varð mikið veikur af veirunni. Í Kanada verða blóð­kornin rann­sökuð á rann­sóknar­stofu lyfja­fyrir­tækisins Am­gen en það á einnig Ís­lenska erfða­greiningu.

Kári greindi fyrst laus­lega frá verk­efninu á CO­VID-19 fræðslu­fundi Ís­lenskrar erfða­greiningar, sem haldinn var á fimmtu­daginn í síðustu viku. Þar sagði Kári verk­efnið hafa gengið vel en að það væri á byrjunar­stigi og langt væri í að lyf yrðu til á þessum grund­velli.

Reynt er að þróa lyf sem verður gefið þeim sem þegar hafa veikst af veirunni. Hér er ekki um að ræða þróun á bólu­efni til að hindra það að fólk fái veiruna. Það á þannig að lækna CO­VID-19 sjúk­dóminn en ekki að fyrir­byggja hann.