Í dag eru 77 ár frá því að kjarn­orku­sprengju var varpað á borgina Naga­saki í Japan. Í til­efni af því munu Sam­tök hernaðar­and­stæðinga og Sam­starfs­hópur friðar­hreyfinga efna til kerta­fleytingar á fjórum stöðum á landinu í kvöld til að minnast fórnar­lamba kjarn­orku­á­rásanna á Japan og til stuðnings kröfunni um frið í ver­öldinni og heim án kjarn­orku­vopna.

Ingi­björg Haralds­dóttir er í sam­starfs­hópnum og hefur tekið þátt í kerta­fleytingunni frá því að það var fyrst gert hér á landi árið 1985, fyrir 37 árum.

„Japanir hafa verið mjög á­nægður með þetta og siðurinn hefur verið mjög vin­sæll frá upp­hafi á Ís­landi. Það eru 37 ár núna frá því að við gerðum þetta fyrst en þá voru 40 ár frá sprengingunni,“ segir Ingi­björg og að til­efni til að minna á mikil­vægi friðar sé ekki minna í dag en þá.

„Fólk kannski áttar sig ekki á því að það er á­kveðin hætta sem stafar af kjarn­orku­vopnum í Úkraínu. Margir lýsa yfir á­nægju með það að vera í NATO núna en það er ekkert endi­lega til að vera glaður yfir því ef við erum í NATO þá erum við í kjarn­orku­veldunum og ef það kemur til kjarn­orku­stríðs þá verðum við með fyrstu skot­mörkunum,“ segir Ingi­björg og að þetta sé það sem að friðar­hreyfingar hafi bent á um ára­bil.
Safnast verður saman við suð­vestur­enda Tjarnarinnar við Skot­hús­veg klukkan 22:30 í kvöld í Reykja­vík en Silja Aðal­steins­dóttir rit­höfundur og bók­mennta­fræðingur flytur stutt á­varp. Tinna Þor­valds­dóttir Önnu­dóttir verður fundar­stjóri.

Á myndinni er Ingibjörg önnur frá vinstri með tengdadóttur sinni, barnabörnum og tveimur friðarsinnum frá Skotlandi sem komu til að vera viðstödd kertafleytinguna árið 201
Mynd/Aðsend

Fjöldinn endurspeglar endurnýjaða hræðslu

Flot­kerti verða seld á staðnum á 500 krónur og bendir Ingi­björg á að það verður enginn posi og því þarf fólk að koma með klink eða seðla ætli það sér að fá kerti til að fleyta.

Á Ísa­firði og Pat­reks­firði verða fleytingar á sama tíma og í Reykja­vík, kl. 22:30. Ís­firðingar hittast við Neðsta­kaup­stað á Suður­tanga þar sem Nina I­va­nova flytur á­varp. Á Pat­reks­firði er komið saman við franska minnis­varðann í Króknum og mun María Ósk Óskars­dóttir flytja á­varp. Á báðum stöðum sam­einast fólk í yfir­lýsingunni: Aldrei aftur Híró­síma og Naga­sakí!
Akur­eyringar koma saman hálf­tíma fyrr, kl. 22 við Leiru­tjörn. Á­varp flytur Árni Hjartar­son, en sam­koman er haldin í nafni Sam­starfs­hóps um frið.

„Ég held að sá fjöldi staða sem þetta er haldið á núna endur­spegli hræðslu fólks á kjarn­orku­vopnum. Fólk sér að þetta eru stór­hættu­leg vopn og vill berjast gegn því að þau séu notuð. Stríðið í Úkraínu færði þetta nær og menn verða að átta sig á því að báðir aðilar hafa kjarn­orku­vopn og ef þeim verður beitt þá mun það hafa hrylli­legar af­leiðingar,“ segir Ingi­björg að lokum.