Abdul Aziz, einn þeirra sem lifði af hryðjuverkaárásina í Christchurch, grýtti posa í byssumanninn sem réðst á tvær moskur í Christchurch í fyrradag. 

Fimmtíu létust í hryðjuverkaárásinni í gærmorgun, meðal látinna er þriggja ára gamall drengur.

Var í moskunni með fjórum börnum sínum

Abdul Aziz, sem er á fimmtugsaldri, var staddur í Linwood moskunni í fyrradag, ásamt fjórum börnum sínum, en Linwood moskan var seinna skotmark árásarmannsins. 

Þegar Aziz áttaði sig á því að verið væri að ráðast á moskuna greip hann í posa sem lá nærri honum og hljóp í áttina að árásarmanninum. 

Hann grýtti svo í kjölfarið posanum í hann þegar áraarmaðurinn sneri sér við til að sækja fleiri skotvopn í bíl sinn. Aziz kraup svo á bakvið bíl þegar árásarmaðurinn fór að skjóta á hann. Þegar byssumaðurinn sneri aftur í moskuna náði Aziz höndunum yfir byssu, sem hinn þungvopnaði árásarmaður hafði misst, en hún var tóm. 

Aziz gafst þó ekki upp og elti árásarmanninn inn í moskuna á ný. 
„Þegar hann sá að ég var með byssu missti hann sína og hljóp í áttina að bílnum. Ég elti hann,“ sagði Aziz í samtali við Reuters-fréttastofuna. 

„Hann sat í bílnum og ég kastaði [byssunni] í gegnum gluggann eins og spjóti. Hann bara bölvaði mér og ók í burtu.“

Hefur fyrirgefið árásarmanninum

Sem fyrr segir létu fimmtíu lífið í árásinni, sem framin var af hægrisinnuðum öfgamanni. Forsætisráðherra Nýja-Sjálands hefur verið lofuð fyrir að kalla hryðjuverkin sínu rétta nafni frá fyrstu stundu.

Nú tveimur dögum eftir árásina hefur verið rætt við ástvini fjölda fórnarlamba og sögur á borð við þá hetjudáð, sem Aziz vann, komið fram í dagsljósið.  Eiginmaður Hosne Ara, sem var myrt í al-Noor moskunni, kveðst ekki hata hryðjuverkamanninn, þrátt fyrir að hann hafi myrt eiginkonu hans, heldur hafi hann fyrirgefið honum. 

„Ég missti eiginkonu mína en ég hata ekki morðingjann,“ sagði Farid Ahmed, sem missti eiginkonu sína í árásinni við fréttamenn. „Ég held að hann hafi verið særður einhvern tíman á lífsleiðinni og hann gat ekki unnið úr áfallinu og það endaði svona.“ Þá sagðist hann hafa fyrirgefið árásarmanninum og væri með hann í bænum sínum.

„Þeir sem fremja hryðjuverk, það vill að fólk sé hrætt. Þau vilja að við veljum milli eins hóps og annars. Kannski voru þau að vona  að ef að þau ráðast á múslima muni múslimar svara í sömu mynt. En við ætlum ekki að gera það.“