Per­sónu­vernd segir að kona sem fletti sam­starfs­konu sinni á Land­spítalanum þrí­vegis upp í heilsu­gátt og Sögu­kerfi Land­spítalans hafi gerst brot­lega. Málið sagt tengjast ein­elti á spítalanum.

Upp­lýsingum úr sjúkra­skrá konunnar var flett upp þrisvar sama daginn, þann 10. júlí 2019. Sú sem flett var upp kvartaði til Per­sónu­verndar. Sam­starfs­konan neitaði að hafa flett konunni upp en kvað hugsan­legt að hún hefði skilið að­gang sinn eftir opinn í mis­gáningi og ein­hver annar hefði notað að­ganginn.

„Fyrir lá að upp­lýsingar um kvartanda voru sóttar í sjúkra­skrá í um­rætt sinn og við það notaður að­gangur sam­starfs­mannsins. Kvartandi var hvorki sjúk­lingur né þáði hún með­ferð eða þjónustu af Land­spítalanum á þessum tíma,“ segir í um­fjöllun Per­són­verndar. Því hafi engin heimild fyrir starfs­menn að skoða sjúkra­skrá konunnar sem síðan kvartaði.

„Ekki var sýnt fram á að ein­hver annar hafi farið inn á að­gangi sam­starfs­mannsins og sótt per­sónu­upp­lýsingar kvartanda í sjúkra­skrá. Verður sam­starfs­maðurinn því að bera hallann af sönnun þess hver og með hvaða hætti ó­við­komandi at­hafnaði sig á opinni að­gangs­heimild og inn­skráningu hans,“ í­trekar Per­sónu­vernd.

Fram kemur í um­fjöllun Per­sónun­verndar að konan sem kvartaði hafi sagst hafa staðið í ein­eltis­máli við yfir­mann sinn á Land­spítalanum. Hún teldi að konan sem fletti henni upp sé „banda­maður yfir­manns hennar varðandi um­rætt ein­elti og hafi í þeim til­gangi flett upp upp­lýsingum um hana í heilsu­gátt og Sögu­kerfi Land­spítalans“.

Sam­starfs­konan sem átti að­ganginn sem notaður var bar að hún hafi skömmu fyrir upp­flettinguna verið að skrá upp­lýsingar um skjól­stæðinga sína en verið trufluð og beðin um að­stoð.

„Hún hafi þá lík­lega staðið upp frá tölvunni án þess að skrá sig út. Þegar hún sneri síðar aftur á deildina hafi kvartandi sjálf setið við um­rædda tölvu. Hún spyrji sig því hvort að kvartandi hafi sjálf, viljandi eða ó­viljandi, notað inn­skráningu hennar til að nálgast gögn sín,“ segir um sjónar­mið þeirrar sem kvörtunin beindist að. Hún hafi enn­fremur hafnað með öllu að vera „þátt­takandi eða banda­maður ein­hvers í ein­eltis­máli gegn kvartanda“.

Í svar­bréfi Land­spítala til Per­sónu­verndar segir að eftir­lits­nefnd um notkun sjúkra­skrár hafi óskað eftir skýringum frá starfs­manninum er málið varðaði. „Hafi út­skýringar starfs­mannsins þótt trú­verðugar. Nauð­syn­legt hafi þó verið að vísa málinu til fram­kvæmda­stjóra lækninga þar sem reglum um notkun sjúkra­skrár hefði ekki verið fylgt til hlítar,“ segir í um­fjöllun Per­sónu­verndar.

Þá segir að í bréfi Em­bættis land­læknis sé tekið undir af­stöðu Land­spítala um að skýringar konunnar teldust trú­verðugar og full­nægjandi. Lík­legast væri að út­skráning úr upp­flettingar­kerfum spítalans hafi mis­farist hjá um­ræddum starfs­manni.

„Fyrir liggur og ó­um­deilt er að upp­lýsingar um kvartanda voru sóttar í sjúkra­skrá hennar í um­rætt sinn og við það notaður að­gangur [B]. Einnig er ó­um­deilt í málinu að á þeim tíma hafi kvartandi hvorki verið sjúk­lingur Land­spítalans né hafi hún þegið með­ferð eða þjónustu af [...deild] Land­spítalans. Lá því engin heimild starfs­manna Land­spítala fyrir upp­flettingu í sjúkra­skrá hennar,“ segir í niður­stöðu Per­sónu­verndar.