Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nýtur yfirburðatrausts í samanburði við aðra ráðherra, samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið. Fylgi við hana hefur þó ekki aukist frá síðustu könnun blaðsins um traust til ráðherra, sem gerð var í júní í fyrra, þegar hún naut fylgis 18,1 prósents þátttakenda. Hún nýtur nú trausts 18,5 prósenta þeirra sem tóku þátt í könnuninni. Á eftir henni koma Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra með 10,8 prósent og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, með 10,7 prósent.

Sýnileiki hefur áhrif

Niðurstöðurnar eru nokkuð frábrugðnar síðustu könnun sem gerð var í júní í fyrra. Þá naut Lilja mests trausts með 20,5 prósent. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur einnig rétt verulega úr kútnum en 7,2 prósent segjast bera mest traust til hennar, samanborið við 3 prósent í síðustu könnun.

Lilja Alfreðsdóttir var mjög sýnileg fyrir ári, sérstaklega í kjölfar Klausturmálsins, og það gæti hafa aflað henni „fylgis“.

„Hér getur sýnileiki ráðherra, þar sem þeir þykja standa sig vel, skipt máli. Þær Svandís og Katrín hafa verið mjög sýnilegar út af COVID, ásamt Bjarna að sjálfsögðu,“ segir Eva H. Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, aðspurð um breytingar frá síðustu könnun. „Lilja Alfreðsdóttir var mjög sýnileg fyrir ári, sérstaklega í kjölfar Klausturmálsins, og það gæti hafa aflað henni „fylgis“ þegar spurt var um hverjum væri best treystandi í þeirri könnun,“ bætir Eva við.

Traust til Katrínar mest meðal háskólamenntaðra

Stuðningur við Katrínu kemur úr öllum áttum. Hún nýtur þó meira fylgis meðal kvenna en karla. Stuðningurinn er nokkuð jafn í öllum aldurshópum, þó mestur með þeirra yngstu og elstu. Traustið eykst einnig með auknu menntunarstigi, en fólk með háskólapróf er líklegast til að treysta henni best.

Katrín nýtur yfirburðastuðnings í eigin flokki, en 82 prósent kjósenda VG treysta henni best allra ráðherra. Kjósendur Viðreisnar nefna Katrínu líka oftast, eða í 30 prósentum tilvika, og fjórðungur kjósenda Samfylkingarinnar. Svandís er þó vinsælli meðal Samfylkingarfólks en 30 prósent þess treysta henni best. Stuðningur við Lilju meðal jafnaðarmanna hefur hins vegar dalað síðan í fyrra.

Sjálfstæðismenn treysta Bjarna og Katrínu best

Líkt og í fyrra treysta flestir Sjálfstæðismenn Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, eða 51 prósent kjósenda flokksins. Katrín Jakobsdóttir nýtur hins vegar meira trausts meðal Sjálfstæðismanna en aðrir ráðherrar flokksins. Rúm 13 prósent Sjálfstæðismanna treysta henni best. Tæp 11 prósent þeirra treysta Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur best og 7,6 prósent nefndu Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur. Innan við 4 prósent nefndu Guðlaug Þór Þórðarson og Kristján Þór Júlíusson.

Mest vantraust í garð fjármálaráðherra

Þegar spurt er hvaða ráðherra þátttakendur beri minnst traust til er Bjarni Benediktsson nefndur oftast allra ráðherra, eða í 25 prósentum tilvika. Hlutfallið er þó töluvert lægra en í fyrra, þegar tæp 35 prósent sögðust bera minnst traust til hans. Færri bera minnst traust til heilbrigðisráðherra en í fyrra sögðust næstflestir bera minnst traust til Svandísar. Í stað hennar er Kristján Þór Júlíusson nú næstoftast nefndur á eftir Bjarna. Í fyrra báru 8,7 prósent minnst traust til Kristjáns Þórs en, en tæp 19 prósent bera minnst traust til hans í dag.

Þeir sem hafa lægstar tekjur, minnsta menntun og tilheyra yngsta aldurshópnum eru líklegastir til að bera minnst traust til Bjarna en vantraust til hans minnkar með hækkandi aldri þátttakenda. Konur vantreysta Bjarna frekar en karlar.

Sigurður Ingi sækir í sig veðrið

Traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, hefur aukist verulega frá síðustu könnun, þegar rúm tvö prósent treystu samgöngu- og sveitastjórnaráðherra best. Nú treysta 6,2 prósent honum best.

Þá hafa kjósendur Framsóknarflokksins tekið formann sinn í sátt. Í fyrra naut Lilja Alfreðsdóttir mun meira trausts meðal kjósenda Framsóknarflokksins, þegar rúm 62 prósent flokksmanna sögðust treysta henni best. Það traust er nú fallið í niður í 36,6 prósent. Nú treysta 40 prósent flokksmanna formanni flokksins best allra ráðherra, samanborið við 15 prósent í síðustu könnun.

Miðflokksfólk treystir Bjarna og Áslaugu best

Traust til Lilju í Miðflokknum hefur einnig fallið síðan í fyrra, þegar tæpur helmingur kjósenda flokksins treysti henni best. Aðeins 11 prósent þeirra treysta henni best í dag. Þeir ráðherrar sem kjósendur Miðflokksins treysta best eru Bjarni Benediktsson (31%) og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (25%).