Flestar tilkynningar til Lyfjastofnunar vegna gruns um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19 varða einkenni frá stungustað og flensulík einkenni. Frá þessu er greint í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þar kemur einnig fram að bæði einkenni séu mjög algeng eftir bólusetningar almennt.

„Þær aukaverkanir eru raunar til marks um að bóluefnið hafi komið af stað ónæmissvari, sem er einmitt tilgangur bólusetningarinnar,“ segir í svari stofnunarinnar.

Á vef stofnunarinnar eru uppfærðar tölur daglega á virkum dögum og kemur þar fram að alls hefur Lyfjastofnun borist 193 tilkynningar vegna gruns um um aukaverkanir. Flestar tilkynningar eru ekki metnar alvarlegar, eða aðeins tíu af 193. Þar af eru átta vegna andláts. Alvarleg aukaverkun er aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla eða er metið sem læknisfræðilega mikilvægt atvik.

132 tilkynningar um grun um aukaverkun eru vegna bóluefnisins Comirnaty frá lyfjaframleiðandanum Pfizer/BioNtech og 61 í kjölfar bólusetningar með bóluefni Moderna.

Beinn samanburður ómögulegur

Í svari Lyfjastofnunarinnar hvað varðar ólíkt hlutfall bóluefnanna kemur fram að hærra hlutfall tilkynninga vegna bóluefnis frá Pfizer merki ekki að það sé hættulegra en bóluefni Moderna.

„Beinn samanburður á tölunum er ómögulegur. Mjög ólíkir hópar hafa fengið bólusetningu með þessum tveimur bóluefnum. Í fyrstu lotu bólusetningar með Comirnaty var okkar viðkvæmasti hópur bólusettur; aldraðir einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma sem búa á hjúkrunarheimilum. Í þeim hópi má búast fleiri tilkynningum vegna bólusetningar, en hins vegar þarf ekki að vera um orsakasamband að ræða milli bólusetningar og tilkynntra tilvika,“ segir í svarinu.

Þar segir einnig að hvert tilfelli sé metið fyrir sig.

Á vefnum boluefni.is má sjá ýmsar upplýsingar um þá einstaklinga sem búið er að bólusetja eftir því hvaða bóluefni var notað, eins og aldursdreifingu og hversu marga er búið að bólusetja. Hægt er að sjá það hér að neðan.