Þing­menn innan öldunga­deildar Banda­ríkja­þings greiddu rétt í þessu at­kvæði um hvort deildin ætti að vísa frá máli Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, en niður­staða at­kvæða­greiðslunnar sýndi fram á það að það væri mjög ó­lík­legt að Trump yrði sak­felldur innan deildarinnar.

Full­trúa­deildin á­kærði Trump form­lega til em­bættis­missis þann 13. janúar síðast­liðinn fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar við þing­húsið fyrr í mánuðinum. Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings, sendi á­kæruna síðan yfir til öldunga­deildarinnar í gær.

Þó nokkrir þing­menn Repúblikana hafa haldið því fram að málið brjóti í bága við banda­rísku stjórnar­skránna þar sem Trump er ekki lengur for­seti. Vegna þessa kallaði Rand Paul, þing­maður Repúblikana eftir því að á­kærunni yrði vísað frá.

Leið­togi Demó­krata innan öldunga­deildarinnar, Chuck Schumer, gaf lítið fyrir rök­semdar­færslu Repúblikana um að það bryti í bága við stjórnar­skránna að á­kæra fyrr­verandi em­bættis­mann og sagði það ein­fald­lega rangt.

45 þingmenn sögðu málið brjóta á stjórnarskránni

Alls greiddu 55 þing­menn at­kvæði gegn því að á­kærunni til em­bættis­missis yrði vísað frá en af þeim voru fimm þing­menn úr röðum Repúblikana. Hinir 45 þing­menn Repúblikana vildu allir vísa málinu frá en Demó­kratar þurfa að fá 17 þing­menn Repúblikana á sitt band til þess að Trump verði sak­felldur.

Lisa Mur­kowski, Susan Collins, Mitt Rom­n­ey, Ben Sasse og Pat­rick Too­mey voru einu þing­menn Repúblikana sem greiddu at­kvæði gegn því að vísa á­kærunni frá.

Meðal þeirra sem greiddu at­kvæði með því að vísa málinu frá var leið­togi Repúblikana innan öldunga­deildarinnar, Mitch McConnell. Hann hafði áður haldið því fram að Trump hafði framið em­bættis­brot en svo virðist sem hann hafi staðið með flokks­mönnum sínum í lokin.

Það er því ljóst að það séu minnkandi líkur á að Trump verði sak­felldur innan deildarinnar en allt getur þó gerst á næstu vikum. Réttar­höldin munu hefjast þann 9. febrúar næst­komandi.