Al­manna­varnir hafa á skrá 27 ein­stak­linga sem smitast hafa tvisvar af Co­vid-19 hér­lendis. Af þeim voru 22 óbólu­settir.

Þetta kemur fram í svari Hjör­dísar Guð­munds­dóttur sam­skipta­stjóra hjá al­manna­varna­deild Ríkis­lög­reglu­stjóra, við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

Í gær greindist met­fjöldi Co­vid-­smita innan­lands, annan daginn í röð. Þau voru 178, tíu fleiri en í fyrra­dag. Í gær lágu fimmtán sjúklingar á Landspítala vegna Covid. Þar af voru þrír á gjörgæslu og allir í öndunarvél. Þá voru 1.359 í eftirliti á Covid-göngudeild, þar af 324 börn.

Á mið­nætti í gær tóku gildi nýjar sam­komu­tak­markanir og í gær sagði Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn að hann vonaðist til að sjá mætti árangur af þeim í næstu viku. Hann hefði fulla trú á að landsmenn fylgdu reglunum, þó að eflaust væru margir orðnir þreyttir á ástandinu.