Helmingur varð var við rangar upplýsingar eða falsfréttir í aðdraganda alþingiskosninganna á Íslandi í september á þessu ári. Stór meirihluti, eða um 72 prósent, sögðust hafa séð slíkar upplýsingar á Facebook. Um 41 prósent þátttakenda sögðu sjónvarp vera mikilvægasta miðilinn í aðdraganda kosninga.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu í aðdraganda alþingiskosninga 2021. Skýrslan byggir á niðurstöðum könnunar Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir dagana eftir kosningar.
11 prósent urðu vör við falsfréttir oft á dag
Í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd segir að 11 prósent þátttakenda hafi orðið vör við slíkar upplýsingar oft á dag síðustu 30 dagana fyrir kosningar. Af þeim sem sögðust hafa orðið vör við falsfréttir eða rangar upplýsingar sagðist rúmlega helmingur, eða 52,2% prósent telja að ákveðinn stjórnmálaflokkur hafi borið ábyrgð á þeim.
Kjósendur ríkisstjórnarflokkana, það er Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokks voru ólíklegust til að hafa orðið vör við falsfréttir eða rangar upplýsingar.
Þá kemur fram í tilkynningunni að flestir hafi séð slíkar upplýsingar eða falsfréttir á Facebook, eða 72,2 prósent. 32,3 prósent sögðust hafa séð slíkt á ritstýrðum netmiðlum, 27,8 prósent í sjónvarpi, 26,3 prósent í ritstýrðum prentmiðlum og 22,3 prósent í útvarpi. Þá sögðust 15,3 prósent hafa séð rangar upplýsingar eða falsfréttir á Instagram, 14,6 prósent á Twitter, 10,5 prósent á YouTube, 5,3 prósent á TikTok, fimm prósent á samskiptamiðli á borð við Messenger eða WhatsApp, 4,7 prósent í hlaðvarpi og 2,9 prósent á Snapchat.
Af þeim sem sögðust hafa orðið vör við falsfréttir eða rangar upplýsingar í aðdraganda kosninganna sagðist rúmur helmingur telja að ákveðinn stjórnmálaflokkur hafi borið ábyrgð á þeim. Þá töldu 29,1 prósent að ákveðinn íslenskur fjölmiðill hafi borið ábyrgð á upplýsingunum og fjórðungur töldu að ákveðinn stjórnmálamaður hafi borið ábyrgð á þeim. Aðeins 2,2 prósent þeirra sem svöruðu töldu að erlendur aðili hafi borið ábyrgð á upplýsingunum.
Í könnuninni var einnig spurt um þann trúnað sem almenningur leggur á upplýsingar frá stjórnmálamönnum fyrir kosningar og traust til fjölmiðla og upplýsinga frá ríkisstofnunum og sóttvarnayfirvöldum.

Sjónvarp mikilvægasti fréttamiðillinn
Alls sögðu 41,3 prósent þátttakenda að sjónvarp væri mikilvægasti fréttamiðillinn í aðdraganda kosninga. 20,4 prósent sögðu að útvarp væri mikilvægast og 18,6 prósent sögðu að ókeypis fréttamiðlar á netinu væru mikilvægastir.
Jafnframt svöruðu 7,3 prósent þátttakenda að þeim þættu fréttamiðlar á netinu sem þau eða aðrir greiddu fyrir mikilvægastir, en aðeins 5,5 prósent sögðu að mikilvægasti fréttamiðillinn væru samfélagsmiðlar. Þá sögðust 5,3 prósent telja dagblöð mikilvægasta fréttamiðilinn og 0,7 prósent sögðust telja að mikilvægasti fréttamiðillinn væru hlaðvörp.
Misjafn skilningur á því hvað hugtökin falsfréttir og rangar upplýsingar fela í sér
Í spurningakönnuninni var spurt um það hvaða röngu upplýsingar eða falsfréttir þátttakendur hefðu orðið varir við í aðdraganda alþingiskosninganna. Af svörum þeirra sem töldu sig hafa séð rangar upplýsingar eða falsfréttir má sjá að einhverjir töldu pólitískar staðhæfingar sem þeir voru ósammála til rangra upplýsinga eða falsfrétta. Við túlkun á niðurstöðum könnunarinnar þarf því að hafa í huga að skilningur þátttakenda á þeim hugtökum sem liggja könnuninni til grundvallar hafi hugsanlega verið ólíkur. Einhverjir virtust þannig hafa annan skilning á því hvað hugtökin „rangar upplýsingar“ og „falsfréttir“ fela í sér en aðrir þátttakendur. Hugsanlegt er að þetta skýri að einhverju leyti þá niðurstöðu könnunarinnar að meirihluti þátttakenda telji ákveðinn stjórnmálaflokk hafa borið ábyrgð á falsfréttum og röngum upplýsingum.
Skýrsluna í heild má nálgast hér.