Flestir í átakinu „Hefjum störf“ hafa verið ráðnir í gistiþjónustu og ferðaþjónustu ýmis konar, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.

Í gistiþjónustu voru ráðnir 1384 einstaklingar, þar á eftir í ferðaþjónustu ýmis konar eða rúmlega 930 manns. Ráðningar voru þá 925 talsins í starfstengd vinnumarkaðsúrræði innan sveitarfélags, sem er opinber þjónusta ýmis konar, fræðslustarfsemi, félags-og heilbrigðisþjónusta.

Hjá Vinnumálastofnun eru nú 8.462 störf í boði tengd átakinu og hefur verið ráðið í 2.325 þeirra, nú síðasta dag maímánaðar. Flestir sem ráðnir hafa verið eru á aldrinum 30 til 39 ára en í heildina og öllum aldurshópum eru erlendir ríkisborgarar 44 prósent.

„Hefjum störf“ er átak stjórnvalda sem var sett á laggirnar þann 15.mars síðastliðinn. Með því fylgir nýjum starfsmanni allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði til þess sem ræður hann í starf, auk 11,5 prósent framlags í lífeyrissjóð. Stuðningurinn getur varað í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi þess hefur náð 70.

Markmiðið með átakinu að til verði allt að sjö þúsund tímabundin störf í fyrirtækjum en einnig hjá opinberum stofnunum, sveitarfélögum og félagasamtökum.

Í maí sem er að ljúka voru 697 ráðningastyrkir veittir sem er mikil fjölgun frá vikunum á undan en í apríl voru 434 ráðnir á slíkum styrkjum.