Rúmlega tveir af hverjum þremur íbúum höfuðborgarsvæðisins sem sóttu verslun og þjónustu við Laugaveg síðastliðna tólf mánuði komu þangað á einkabíl. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið.

Alls sögðust rúm 84 prósent hafa sótt verslun og þjónustu við Laugaveg undanfarna tólf mánuði. Eins og fyrr segir komu flest þeirra þangað með einkabíl en rúm 16 prósent komu oftast fótgangandi, rúm ellefu prósent með strætó og rúm þrjú prósent á hjóli.

Hlutfall þeirra sem oftast komu á Laugaveg á einkabíl eykst með hærri aldri, þó með þeirri undantekningu að hlutfallið er nokkuð hærra hjá 18-24 ára en hjá 25-44 ára.

Þá var nokkur munur á svörum fólks eftir búsetu. Þannig sögðust tæp 57 prósent Reykvíkinga oftast koma með einkabíl, tæpur fjórðungur oftast fótgangandi, rúm ellefu prósent með strætó og um fimm prósent á hjóli.

Laugarvegur.PNG


„Það jákvæða er að það segjast langflestir sækja þjónustu og verslun í miðbæinn. Það er líka mjög áhugavert hvað miðbærinn virkar líka sem ákveðinn hverfiskjarni og fólk sem býr nálægt er líklegra til að sækja þjónustu þangað,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar.

Hlutfall þeirra sem koma oftast á bíl var á bilinu 81 til 94 prósent í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og hjá íbúum landsbyggðarinnar.

Einnig var nokkur munur á ferðavenjum fólks eftir menntun. Þannig nota áberandi færri einstaklingar sem lokið hafa háskólamenntun einkabíl þegar þeir sækja verslun og þjónustu á Laugaveg en aðrir hópar.

Þeir sem oftast nota einkabíl voru einnig spurðir að því hvar þeir legðu bílnum oftast. Rúm 28 prósent notast við bílastæðahús í nágrenninu, tæp 28 prósent leggja við aðliggjandi götur, um fjórðungur í bílastæðum í nágrenninu en tæp ellefu prósent leggja við Laugaveg.

Sigurborg segir þær niðurstöður nokkuð rökréttar. „Það eru svo fá bílastæði á Laugaveginum sjálfum og því eðlilegt að langflestir leggi annars staðar. Í heildarsamhenginu skiptir aðgengi mestu máli. Þá eru það ekki endilega stæðin sem eru fimm metra frá verslunardyrunum sem skipta máli.“

Sigurborg bendir líka á að það sé í raun komin verslun og þjónusta í flestar hliðargötur, Hverfisgötu og aðrar nálægar götur. „Þannig að fólk er ekki einhliða að sækja þjónustu á Laugaveginn heldur í miðbæinn.“

Konur eru líklegri en karlar til að nota bílastæðahúsin og hið sama gildir um tekjuhærri hópa sem nota húsin meira en tekjulægri hópar. Þá er fólk á aldrinum 24-54 ára mun líklegra til að nota bílastæðahúsin heldur en yngri og eldri hópar.

Síðastliðinn vetur var samþykkt að gera hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Til stendur að útvíkka svæðið í áföngum þannig að allur Laugavegur að Hlemmi verði varanleg göngugata.

Könnunin sem var send á könnunarhóp Zenter var framkvæmd 16. til 28. júlí. Í úrtaki voru 2.600 manns 18 ára og eldri en svarhlutfall var rúm 55 prósent. Gögnin voru greind eftir kyni, aldri og búsetu.