Íslendingar virðast á heildina litið jákvæðir gagnvart alþjóðasamvinnu ef eitthvað má marka skoðanakönnun Maskínu sem birt var á heimasíðu utanríkisráðuneytisins í dag. Jafnframt hefur orðið töluverð aukning í hlutfalli Íslendinga sem segjast þekkja vel til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en hlutfallið hefur farið úr 8,6 prósentum upp í 16,8 prósent.

Af niðurstöðum könnunarinnar að dæma eru Íslendingar jákvæðastir gagnvart samvinnu með frændþjóðum sínum á Norðurlöndum en 89,8 prósent aðspurðra sögðust jákvæð virkri þátttöku í Norðurlandasamstarfi. Um þrír fjórðu landsmanna voru jafnframt hlynntir aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum og litlu færri hlynntir störfum þess með mannréttindaráði SÞ. Um sjötíu prósent voru jákvæðir gagnvart þátttöku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Almennt virðast vera hvað minnstur stuðningur við alþjóðasamstarf Íslands í varnarmálum. Til dæmis kvaðst aðeins rúmur helmingur vera jákvæður gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og tæp sextán prósent andvíg. Eins voru um fimmtíu prósent hlynnt norrænu varnarsamstarfi en aðeins rúm fimm prósent mótfallin því. Minnstur stuðningur, 43,1 prósent, var við varnarsamstarf Íslands við Bandaríkin en þar sögðust 21,4 prósent neikvæð gagnvart því.

Einnig eru nokkuð skiptar skoðanir um Evrópusamstarf Íslands. Um 42,7 prósent sögðust jákvæð gagnvart Evrópusambandinu en 26,1 neikvæð. Tæp 55 prósent sögðust hlynnt aðild Íslands að EES-samningnum en 12,4 prósent andvíg henni. Hinir fyrrnefndu byggðu skoðanir sínar á auknum tækifærum til náms og atvinnu, auknu viðskiptafrelsi og ódýrara verðlagi. Hinir síðarnefndu vísuðu fremur til óþarfra tilskipana eða reglugerða og yfirráða yfir auðlindum landsins.

Almenn fylgni var á milli þekkingar og viðhorfs aðspurðra um alþjóðastofnanirnar sem spurt var um, en þeir sem sögðust meira þekkja til þeirra voru jafnan jákvæðari í þeirra garð en þeir sem sögðust minna þekkja.