Meiri­hluti lækna telur sig vera undir of miklu á­lagi með til­heyrandi streitu­ein­kennum, truflandi van­líðan og sjúk­dóms­ein­kennum. Rúm­lega helmingi lækna hefur fundist að þeir geti ekki upp­fyllt kröfur eða ráðið við tíma­þröng í starfi og svefn­truflanir eru al­gengar. 

Þetta er á meðal niður­staðna viða­mikillar könnunar á líðan og starfs­að­stæðum ís­lenskra lækna, sem kynntar verða á Lækna­dögum í Hörpu. Á því tólf mánaða tíma­bili sem spurt var um hafði um það bil helmingur lækna hug­leitt það oft eða stundum að láta af störfum. 

„Ríf­lega helmingur lækna er á­nægður með starfs­um­hverfi sitt og sömu­leiðis með stjórnun þeirrar deildar sem þeir starfa í. Þó vantar tals­vert upp á að skil­greiningar á starfs­sviði séu full­nægjandi og svig­rúm til sí­menntunar og vísinda­starfs er of lítið,” segir í niður­stöðum könnunarinnar. 

Einelti og kynbundið ofbeldi til staðar

Þá segir að ein­elti og kyn­bundið of­beldi sé sam­bæri­legt við margar aðrar starfs­stéttir. „ Tæp­lega 7% kvenna töldu sig hafa orðið fyrir kyn­ferðis­legu á­reiti á vinnu­stað síðustu þrjá mánuðina og 47% ein­hvern tímann á starfs­ævinni. Sam­bæri­legar tölur hjá körlum voru 1% og 13%. Sjö prósent svar­enda taldi sig hafa orðið fyrir ein­elti á síðustu þremur mánuðum og 26% ein­hvern tímann á starfs­ævinni.” 

Þegar kom að launa­kjörum skiptist af­staða lækna í tvo á­líka stóra hópa. Um 45 prósent svar­enda voru mjög eða frekar ó­sam­mála því að laun þeirra væru sann­gjörn en 42 prósent svar­enda voru því mjög eða frekar sam­mála. 

„Að meðal­tali var vinnu­vika um fjórðungs þátt­tak­enda á bilinu 61-80 klukku­stundir og 4% voru með yfir 80 unnar klukku­stundir á viku. Einungis um fjórðungur allra starfs­stöðva taldist vera hæfi­lega mannaður en í um 72% til­vika þóttu þær vera undir­mannaðar.” 

Staðsetningin við Hringbraut óheppileg

Um helmingur svar­enda taldi þó að ís­lensk heil­brigðis­þjónusta væri sam­bæri­leg við það sem þeir þekktu í ná­granna­löndum. Yfir 60 prósent lækna töldu stað­setningu Land­spítala við Hring­braut ó­heppi­lega og þörf á nýju staðar­vals­mati vegna byggingar nýs spítala. 

Könnunin var unnin í októ­ber síðast­liðnum fyrir Lækna­fé­lag Ís­lands af For­vörnum ehf. undir stjórn Ólafs Þórs Ævars­sonar geð­læknis. Alls bárust svör frá 728 læknum eða ríf­lega helmingi allra lækna á Ís­landi. Aldurs­dreifing og skipting á milli kynja var í á­gætu sam­ræmi við stéttina í heild sinni og sömu­leiðis skipting á milli starfs­stöðva (sjúkra­hús, heilsu­gæsla, einka­rekstur, opin­ber rekstur o.s.frv.). Niður­stöðurnar eru á­þekkar á milli ó­líkra starfs­stöðva og virðast gefa glögga heildar­mynd af at­vinnu­tengdri líðan lækna um þessar mundir.

Árlegir Læknadagar fara fram í Hörpu dagana 21. til 25. janúar.