Tæplega 49 þúsund íslenskir ríkisborgarar eru með skráða búsetu erlendis. Tæplega fjórðungur þeirra er búsettur í Danmörku þar sem búa 11.590 Íslendingar. Þá eru Íslendingar búsettir í hundrað af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, þar af aðeins einn Íslendingur í fimmtán ríkjum.

Þetta kemur fram í nýrri talningu Þjóðskrár. Norðurlöndin Danmörk, Noregur og Svíþjóð bera af í fjölda Íslendinga, en heilt yfir búa rúmlega 29 þúsund Íslendingar í þessum þremur löndum.

Vestanhafs eru tæplega 6.500 Íslendingar með búsetu í Bandaríkjunum og níu hundruð í Kanada, en aðeins 76 í Suður-Ameríku. Þá eru rúmlega hundrað Íslendingar með skráða búsetu í Afríku, tæplega 250 í Asíu og um 700 í Eyjaálfu.