Mikill meirihluti, eða um 75 prósent, þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Prósents segist vera hlynntur því að þeim, sem hafa verið ásökuð um kynferðisbrot verði, verði vikið úr stjórnunarstörfum eða stjórnum fyrirtækja og félaga.

Miðaldra fólk, 45 til 54 ára, sker sig töluvert úr frá öðrum aldurshópum því þar eru heil 16 prósent andvíg því að stjórnendur þurfi að bera ábyrgð komi fram ásökun um kynferðisbrot.

Þó eru 67 prósent þeirra hlynnt slíkri ákvörðun sem er það lægsta í öllum aldursflokkum.

Þá eru 15 prósent karlmanna andvíg því að stjórnarmenn eigi að víkja komi ásökun fram og 65 prósent hlynnt en 20 prósent taka ekki afstöðu.

Ungt fólk er yfirleitt hlynnt því að stjórnendur og stjórnarmenn þurfi að axla ábyrgð komi ásökun upp á yfirborðið en 80 prósent eru hlynnt því að stjórnendur þurfi að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Hlutfallið minnkar eftir því sem fólk verður eldra, þó ekkert jafnist á við hlutfall þeirra sem miðaldra eru.

Alls eru 10 prósent þeirra sem eru 65 ára og eldri andvíg því að einhverjum sé vikið úr starfi komi ásökun upp og 11 prósent þeirra sem eru 55 til 64 ára. Um 20 prósent eldra fólks taka ekki afstöðu og sögðu hvorki né.

Um netkönnun var að ræða hjá Prósenti og var hún framkvæmd dagana 14. til 26. janúar. Úrtakið var 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri og svarhlutfall var 50 prósent.